Komum einu á hreint áður en lengra er haldið. Ef þú ætlar ekki að vera í herberginu þegar getnaður á sér stað þá áttu ekkert með að spyrja annað fólk út í mögulegar barneignir þess. Það kemur okkur einfaldlega ekki við hvort Jóni eða Gunnu langi í börn eða hvort þau geti eða muni eignast þau. Við verðum að treysta því að ef Jón eða Gunnu langar að ræða þessi mál við okkur þá muni þau bara gera það að fyrra bragði.
Mér fylgir dásamlega fallegt fjögurra mánaða gamalt barn akkúrat núna. Dóttir mín er á sætum aldri – hún hjalar og brosir við öllum, sefur eins og engill og lyktar eins og hárið á Ryan Reynolds. Hvert sem ég fer með hana kemur barneignarumræðan upp. Það „klingir“. Einkum hjá konum. Karlar fá almennt sjaldnar þessa spurningu um hvort þá langi í barn eða fleiri slík. Það er ekki gantast með að þá kitli í sáðrásina.
Það er 2016. Það vilja ekki allir eignast börn. Það geta ekki allir eignast börn og það er óþægilegt og sárt fyrir marga að þurfa að ræða þessi mál í hvert sinn sem sætur krakki er inni á sjónsviðinu.
Ég held að ýmsir eigi erfitt með að taka einlægan þátt í barneignarumræðunni, hvað þá þegar viðkomandi heldur á sex kílóa krútti fyrir framan fullt af fólki. Og við erum meira að segja bundin af undarlegu orðfæri í kringum þennan hluta lífsins, orðum og hugtökum sem eru beinlínis niðrandi og villandi.
Ræðum sem dæmi orðið getnaður. Þú getur barn þegar þú býrð það til. En það eru ýmsir sem ekki geta, þó þeir vilji. Þetta er brútal og mjög útilokandi orð – hvað þá „getuleysi“ og það að vera „ófjór“ eða „óbyrja“. Er furða að það fari á sálina á fólki þegar þú þarft að útskýra að þú „getir ekki“ eitthvað sem heiminum finnst svona sjálfsagt. Við tölum um að „reyna“. Þegar fólk er í fasanum í barneignarrúllettunni þá er það að „reyna að geta … barn“. Það er ekki beinlínis uppbyggjandi heldur.
„Fóstureyðing“ er síðan ferlegt orð. Næsti bær við tortímingu. Ég fagna framtakinu um að kalla þær aðgerðir frekar meðgöngurof. Svo er reyndar orðið meðganga verulega villandi, ég get staðfest að ég geng miklu meira með barnið núna eftir að það kom út. Maður fattar til hvers mjaðmirnar eru, þær eru svona setsvæði fyrir smáfólk. Réttara væri að kalla bökunartímann „inniburð“. Maður er „ófrískur“, „vanfær“ og „þungaður“ og sumir segja „barnshafandi“ en allt eru þetta gildishlaðin orð. Mér finnst fallegast að segja að maður „eigi von á sér“. Því maður vonar auðvitað að barnið líkist manni sjálfum mest.
Svo er það hið mjög svo villandi orð „morgunógleði“. Það er nú bara eitthvað samsæri. Sannara heiti væri kannski að segja „viðvarandi gubbuþörf“ eða „stöðug uppköst á öllum tímum sólarhrings“. Það var einhver bjartsýnisbibbi sem fattaði upp á orðinu „ógleði“ yfir uppköst.
Og svo tölum náttúrulega um að „stofna“ fjölskyldu. Svona eins og fyrirtæki. Ég verð að segja að fjölskylda er ekki vænleg rekstrareining – þar er lítil stærðarhagkvæmni í núverandi árferði.
En málið er og verður. Við vitum ekki hvað býr að baki ákvörðunum fólks um að eignast börn, eða eignast ekki börn né hversu mikið mál það er. Og við vitum ekki hversu margir eru þegar búnir að spyrja út í þetta mjög svo persónulega efni, því þetta virðist vera undarlega sjálfsögð smá-hjals-spurning í fjölskylduboðum.
Gerum bara ráð fyrir að fólk sé orðið hundleitt á þessari spurningu og að þetta komi okkur ekkert við, tölum saman um veðrið og júróvisjón.