Auglýsing

Kjarapartýið

Nú þegar fjöldi kjarasamninga er að opnast á Íslandi, setja allir upp blindara til beggja átta áður en þeir setjast til borðs. Erfitt er að gagnrýna þessa aðferð vegna þess að launahæstu stéttir landsins hafa gengið á undan með slæmu fordæmi. Hvar endar þetta partý?

Kjarabarátta á Íslandi er eins og barnaafmæli með foreldrana tjóðraða inni í kústaskáp: Frumskógarlögmálið tekur völdin. Svínin dunda sér við að tína allt nammið af kökunni á meðan prúðbúnir gestir rétta afmælisbarninu gjafir. Þegar krakkarnir sjá svínið sleikja klaufirnar verða þeir gramir og henda restinni af hugmyndum sínum um kurteisi og sanngjarna hlutdeild í ruslið. Næst gera allir sem fengu ekkert nammi, kröfu um stóra sneið plús kremið af hálfri kökunni. Enginn leiðir hugann að því hvort heildarkröfurnar geri það að verkum að éta verði sömu kökuna oftar en einu sinni með tilheyrandi bólgum og uppköstum. Á meðan velta svínin sér upp úr kreminu með fullan maga af nammi og virða fyrir sér spriklandi kraðakið.

Í raun er við alla og engan að sakast. Þetta er einhver allsherjar hringavitleysa sem tekur ekki enda fyrr en samfélagsvitundin er leyst úr læðingi, eða úr kústaskápnum og afmælið er hugsað í einhverju heildarsamhengi. Nauðsynlegt er að farið sé eftir fyrir fram ákveðnum reglum við úthlutun og að svínunum sé vísað heim og ekki boðið í næsta partý ef þau náðu að éta margfaldan skammt af kökunni.

Þá fyrst er hægt að byggja á trausti og semja af ábyrgð. Þá getum við farið að sitja afmælisveislur án þess að varaliturinn smyrjst út á kinn við borðhald sem átti að vera hápunktur dagsins. Við slíkar aðstæður geta prúðbúnir gestir gert tilkall til sanngjarnrar hlutdeildar án þess að hætta með því á að svínið við borðsendann hrifsi til sín hina ,,sneiðina‘‘, það er að segja, næstum alla helvítis kökuna.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing