Auglýsing

Krossgötur

Þetta er svo fallegt orð, krossgötur. Ekki nóg með það heldur þá er þetta sennilega eini titillinn sem að RÚV hefur tekist að þýða rétt í gegnum tíðina. Þá er ég auðvitað að vísa í hina ógleymanlegu og lifechanging (hvernig þýðir maður það? Nú skil ég erfiðleikana sem standa frammi fyrir þýðendunum á RÚV) mynd Crossroads, með Britney Spears.
En ég er að tala um krossgötur. Ég stend sumsé á pínu krossgötum. Ég er orðin skuldlaus. Ég er semsagt ekki lengur tík Arion banka, þar sem að ég borgaði niður yfirdráttinn minn og núna er heimabankinn minn bara grænn. Grænn og fallegur. Mér finnst samt rauður fallegri litur en þetta snýst víst allt um samhengið.

Að því sögðu ætla ég að segja ykkur frá framhaldinu og jafnvel fara aðeins í fortíðina…

Ég bjó fyrir ári síðan í þeirri frábæru borg, París. Fólk átti misauðvelt með að skilja af hverju og á það ennþá þegar ég segi þeim að ég sé að fara aftur. 
Sumir segja: „Ohhh París, jiiii það er svo yndisleg borg“. 
Aðrir segja: „Af hverju í ósköpunum viltu fara þangað? Það tala allir frönsku, neita að tala ensku, eru hrokafullir og það er hlandlykt þarna! Hvað í ósköpunum ætlar þú að fara að gera þar? “. Sem ég svara auðvitað: „læra frönsku og pissa á götur Parísar“. 
Þó að fyrri athugasemdin sé vissulega réttari en hin. Enn aðrir vildu ólmir vita hverskonar háskólagráðu ég fengi úr þessu öllu saman.

Gráðu-gráðuga fólkinu virðist vera það alveg óskiljanlegt af hverju einhver ætti að hætta sér út í nám sem að er ekki verðlaunað með háskólagráðu. Og þrátt fyrir mínar tilraunir til þess að segja þeim að tungumálið heilli mig og önnur menning en íslensk sé hrikalega spennandi að þá virðast flestir hallast að því að ég væri betur sett í frönskunni í HÍ. Þá mundi ég sko læra frönskuna og fá útprentað, 12 punkta letrað Times New Roman gráðuspjald til viðbótar.

Annars er þetta einmitt kjarni málsins. Sú ákvörðun að standa frammi fyrir því að:

1. Gera eitthvað nýtt, algjörlega framandi (því maður notar það orð yfirleitt aldrei) og klára alla peningana þína í eitthvað, í öðru landi, sem að þú veist ekkert hvernig verður.

2. Vera áfram á Íslandi, hafa það ágætt og vinna eins og Íslendingur. Hefði sett „hestur“ hér inn en nýlega hefur mér orðið það ljóst að hinn „venjulegi“ íslendingur vinnur mun meira heldur en íslenski hesturinn sem gerir ekki neitt yfirleitt nema að bera fulla íslendinga á starfsmannahittingum um helgar.

En með ágætt á Íslandi, Akureyri nánar til tekið, meina ég þá að ég get leyft mér að splæsa í vini, óvini og drykkjufélaga á barnum á pósthús án þess að svitna yfir því, eða svona yfirleitt. Og á meðan spilast: Lífið er yndislegt remix.. Það er alveg eins gott að segja það núna að þetta er ekki svona „hvað ef” heldur gerðist þetta vissulega í alvöru. 
Einhver versta móðgun við íslensku þjóðina síðan Júlí Heiðar fór að bleyta gólf um allt land. Það eina sem hefði getað verið verra væri Nína – No request edition.

Útúrdúr, afsakið. En þetta snýst „Bottom line“ (nú finn ég aftur í þýðingarerfiðleikum RÚV) um það hvort ég vil velta fyrir mér hvernig ég get sparað 10.000 krónur á meðan ég labba meðfram Signu eða verð eftir á Íslandi og velti fyrir mér hvort að ég eigi að kaupa mér kort í ræktina eða klippikort á Happy Hour. Ef að það er á annað borð hægt að kaupa klippikort á Happy Hour.

Nei, annars ætli ég sé ekki nokkurnveginn búin að ákveða mig. Það er þó alltaf erfitt að labba beinustu leið inn í gjaldþrot. En ég get huggað mig við að ég hef þó gert það áður.
 Auk þess er rauður að sjálfsögðu jólalitur og því vel við hæfi að koma heim með smá skuldalit. Ég hef hvort sem er aldrei tekið mikinn lit í sólinni þannig að það er gott að geta tekið lit annars staðar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing