Það getur verið svo góð tilfinning að fresta. Í gjörðinni sjálfri er fólgið fallegt loforð um efndir og umbun, og trú á eigin getu og aga. Jú, það kemur að þessu öllu. Og ef það frestast út í hið óendanlega, var það þá nokkuð svo mikilvægt til að byrja með? Hér er játningalistinn yfir það sem ég er að fresta akkúrat þessa dagana. Ég hef verið að fresta því að birta þennan pistil í 19 daga því ég skammast mín svolítið fyrir þetta.
Núna er ég að fresta því …
- að endurnýja tryggingarnar
- að flokka í sundur stóru og pínupínu litlu legókubbana (bévítans nanókubbar, hver fann þetta upp?!)
- að fara í endurvinnsluna
- að strauja einu strauþurfandi skyrtuna mína
- að yfirfara slökkvitækið
- að kaupa nýtt lýsi, því hitt er orðið shady og ég ætla alltaf að byrja aftur í lýsinu en beila á því.
- að panta tíma hjá kvensjúkdómalækni
- að panta tíma í krabbameinsskoðun
- að panta tíma hjá sálfræðingi til að skoða rót þessarar frestunarþarfar
- að boða húsfund
- að framkalla
- að uppfæra stýrikerfin
- að heimsækja langömmu
- að þrífa bakaraofninn
- að finna þarna pappírinn sem ég týndi út af þarna whatever og skanna hann og senda
- að finna út úr þessu með ryksugupokann
- að fræða barnið um einkastaðina og æxlunarfærin og hvernig börnin verða til
- að fara upp á Esjuna næst þegar það verður gott veður
- að minnka ipad-notkun barnanna
- að sortera mig gegnum sokkaskúffuna
- að fara með bílinn í smurningu
- að afísa ísskápinn
- að segja upp áskriftinni minni að átján mismunandi fréttabréfum á netinu
- að flokka of lítil föt úr fataskápum barnanna
- að skipta um peru í útiljósinu
Eru fleiri að díla við þetta? Ég játa líka að stundum skrifa ég atriði á to-do listann minn sem ég er þegar búin að framkvæma, bara svo ég geti strikað strax yfir það.
Sé reyndar að á frestunarlistanum er ákveðið munstur. Þetta er í flestum tilfellum einföld atriði sem taka ekki langan tíma, flest má framkvæma á innan við 10 mínútum. En ég leyfi mér að mikla þetta fyrir mér. Gott að losna við þetta af samviskunni, mér líður bara eins og ég hafi áorkað einhverju í dag. Ætla að stroka þetta út af listanum.
Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.