Auglýsing

Maður verður að redda sér

Það fylgja því margir kostir að búa ein í ókunnugu landi. Það getur verið rosalega frelsandi að vera alveg ein, í þínum eigin félagsskap með ekkert að trufla þig. Suma daga er þetta virkilegur kostur. Aðra daga er þetta hinn mesti ókostur.

Það verður að segjast að hér í Frakklandi bera ókostirnir þig stundum ofurliði svona ef þú talar ekki frönsku reiprennandi. Eins og bara það að kaupa sér brauð verður áskorun.
Fyrst þegar ég flutti til Parísar á síðasta ári var brauð það fyrsta sem að ég ákvað að kaupa mér í matvörubúðinni. Ég var ákveðin að kaupa mér hvítt franskbrauð, skinku, ost og rjómaost. Ég hafði draum um að henda þessu öllu saman í örbylgjuofninn og njóta samlokunnar eftir ömurlega erfiðan dag af þrifum og öðrum hlutum sem fylgja því að flytja og koma sér fyrir í annarri borg.

Eftir fimmtíu sekúndur í örbylgjuofninum tók ég samlokuna út og beið fyrsta bitans með eftirvæntingu. Ég opnaði svellkalda kók með og lét á þetta reyna. DJÖFULL. Í fyrstu skildi ég ekkert hvað hefði átt sér stað. Hafði ég gleymt Chupa Chups-sleikjónum mínum á brauðinu? Tæplega, þar sem ég hafði ekki borðað svoleiðis í fjögur ár. 
Nei, ég tók annan bita. Þetta var bara ég að vera með fordóma. Fordóma gegn Frakklandi og átti sennilega bara erfitt með að aðlagast. ANDSKOTINN. Þarna rifjaðist menntaskólafranskan upp fyrir mér og ég las á brauðpokann. JARÐARBERJABRAUÐ? Skjannahvítt franskbrauð með jarðaberjabragði. Auðvitað hefði ég átt að hugsa fyrir því. 
Ég læknaðist fljótt af þessum fordómum mínum. Ég fór að taka með mér franska-íslenska vasaorðabók í búðina.

Núna ári seinna er ég aftur komin til Parísar, peppaðri en nokkru sinni fyrr. En svo koma svona móment, sem að fá mig til þess að fá bragðið af viðurstyggilega jarðarberjabrauðinu aftur. Svona eins og þegar ég er hlegin út úr bankanum. Ég gekk inn í bankann í gær í von um að fá franskan bankareikning. Með allar nauðsynlegar upplýsingar með mér, leigusamning og vegabréf ávarpaði ég bankakonuna og bauð henni góðan daginn. Því næst spyr ég hana: „Madame, vous parlez anglais?“

Var ég með mús á milli tannanna? Var ég með nip-slip? Var ég með tyggjó í hárinu? 
Hvað var svona fyndið? 
Jú, bankavinkona mín potar í allar vinkonur sínar í bankanum og þetta gengur alla röðina, þær springa allar úr hlátri. Það leið ekki á löngu fyrr en að flestir viðskiptavinir bankans voru farnir að flissa með líka. Þá talaði enginn ensku. Haha. Að mér skyldi detta það í hug að einhver tali ensku í einni frægustu borg allra tíma. Og það í Evrópu? 2015? Ég skil ekki enn þá almennilega hvað gerðist en ég baðst afsökunar á þessari fáránlegu spurningu og flúði.

Ég get líka sagt ykkur frá þeim litlu persónulegu sigrum sem fylgja því að búa ein í ókunnugri stórborg. Ég gæti sagt ykkur að óboðinn gestur hafi komið í heimsókn. Ég gæti sagt ykkur að hann var með sex fætur, feitan bakhluta og iðandi fálma. Ég gæti sagt ykkur að hann hafi verið á stærð við hausinn á mér. Það er lygi. Hann var á stærð við lófann á mér. Ég sver það. Ég gæti sagt ykkur að ég hafi kramið hann og haldið áfram með líf mitt. 
Ég gæti hinsvegar ekki sagt ykkur að ég hafi starað á hann og fylgst með hverri einustu hreyfingu í einn og hálfan tíma áður en ég öskraði í mig kjarkinn til þess að spreyja hálfum hreinsispreybrúsa á hann áður en ég tók kústskaft og barði út í loftið þar til að ég hitti hann fimm mínútum síðar. 
Það er hreinlega brjálað að gera hérna í útlandinu.

Annars fylgja þessu, að öllu gríni slepptu, mun fleiri kostir en gallar. Maður bara einfaldlega verður að redda sér, í einu og öllu. Ef þú talar ekki frönsku, lærðu hana. Ef þú skilur ekki eitthvað, skildu það. Ef þú ratar ekki, lærðu að rata. Ef þú færð pöddu inn til þín … bíddu þangað til hún fer eitthvað annað.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing