Það fara fram stöðug réttarhöld í hausnum á mér. Þar situr sakborningurinn ég undir ásökunum dómarans, sem er líka ég, um allskonar líklega og ólíklega uppeldisglæpi; mistök, skort og óþol. Þú ferð nefnilega ekki bara heim með barn af fæðingadeildinni – þú ferð líka heim með samviskubit.
Þú verð ekki nógu miklum tíma með barninu.
Þú gafst því skyr með of miklum sykri.
Þú leyfir því að horfa of mikið á sjónvarp.
Þú leyfir því að vaka of lengi frameftir.
Þú lætur of oft undan.
Þú klæddir það ekki nógu vel.
Þú klæddir það of vel.
Þú ert of mikið í símanum.
Þú tekur alltaf vinnuna með heim.
Þú gleymdir að nota sólarvörnina.
Listinn yfir of og van er endalaus og því fylgir óheyrilegur skammtur af óöryggi. Það er enginn með manúalinn. Flesta daga líður þér mögulega eins og allir séu að senda þér skilaboðin um að nú sértu pottþétt að klúðra einhverju. Því börnin eru aldrei nákvæmlega eins og maður „ætlaði að hafa þau“. Lítil ljósrit af bestu-mögulegu-þér.
Og við sem meinum svo vel. Foreldrar vilja svo einlæglega standa sig og vera til fyrirmyndar. En að vera fyrirmynd 24 tíma á dag, alla lífsins daga er verulega lýjandi – og dæmt til þess að mistakast. Svo er bókað að daginn sem þú ert upp á þitt versta eru mestu líkurnar á því að barnið þitt sé stillt á móttöku, spegli allt sem þú gerir og tengdafólkið þitt verði vitni að öllu saman – nú eða mamma þín (kosmíski brandarinn er svo að þú hefur ábyggilega lært alla þína „ósiði“ af henni hvort eð er).
Það var svo mikill léttir þegar góð kona sagði mér loksins hvað væri mögulega að hamla hausinum á mér. Ég er nefnilega með árangurstengdan tilverurétt. Ef ég er ekki að „gera eitthvað“ þá líður mér eins og ég sé einkis virði. Þaðan koma réttarhöldin og tilfinning þess að vera aldrei að gera sitt besta. Þegar manneskja með slíkan tendens áskapar sér það hlutverk að ala upp annan einstakling þá verður eitthvað undan að láta. Það er tryllingslega erfitt að mæla árangur af uppeldi. Þar er engin einkunnagjöf, ekkert umbunarkerfi, engin Nóbelsverðlaun. Og þú getur bókað að þar er heldur enginn sýnilegur árangur akkúrat þegar þig langar að sjá hann. Sísifos var ábyggilega frábær faðir.
Versta mótsögnin er samt þessi: Ég held ekkert að ég sé betri en aðrir en ég geri samt meiri kröfur til mín heldur en annarra. Hversu klikkað er það? Og svo veit ég alveg hversu óheilbrigt og galið þetta er allt saman en ég losna samt ekki við óöryggið, sektarkenndina og skömmina yfir því að vera ekki fullkomin móðir/kona/manneskja.
ATH.
Ingunn Ásta Sigmundsdóttir uppeldisfræðingur og kennari leiðbeinir á örnámskeiðinu Er fullkomnun feik?, laugardaginn 20. febrúar nk. Þar verður m.a. rætt um foreldrahlutverkið í dag og mýtuna um fullkomna foreldra. Skráning á námskeiðið fer fram gegnum netfangið ornamskeid2016@gmail.com.