Mér líður illa. Mér er búið að líða illa í allan dag og mig langar að segja ykkur af hverju.
Í Hæpinu erum við oft að fjalla um skemmtilega hluti sem við koma ungu fólki en líka erfiða hluti. Síðasta haust gerðum við tvöfaldan þátt um kynbundið ofbeldi. Við sátum sveitt við það í margar vikur. Þegar heim var komið fylgdu viðtölin úr þáttunum með. Fyrst í undirmeðvitundinni svona rétt fyrir svefninn. Maður fann kannski lausn á vandamáli í dagskrárgerðinni sem maður lagaði daginn eftir. Því nær sem við komumst að lokaútgáfu þáttarins, því meira tók viðfangsefnið á. Alls staðar sá maður misréttið í samfélaginu — í réttarkerfinu, umræðunni eða jafnvel manns eigin hugsunum.
Þegar maður gerir heimildarþætti á RÚV verður maður að passa sig að halda augum dagskrárgerðarmannsins. Við verðum að skoða allar hliðar málsins til að fá skýra mynd af viðfangsefninu. Þess vegna er ég kannski að fara langt út fyrir valdsvið mitt í þessum texta. En í þessu tilfelli get ég bara ekki látið eins og David Attenborough til þess að ná skoti af ljónum að slátra hýenu.
En þannig grunar mig að íslenska ríkið fari með fólkið sem við höfum fylgst með í dag. Það sem ég sá í dag heitir KYNÞÁTTAOFBELDI og á ekki að líðast nokkurn tíma, neinstaðar. Ég er jafn dökkur og þetta fólk en ég er líka svo heppinn að hafa fyrir tilvlijun lent á Íslandi af öllum stöðum í heiminum. Hér er gott að vera. Range Rover og bumba. Ásbyrgi og Sinfó og Nova 2 f 1.
Á Íslandi getur maður komið og unnið löglega án þess að borga skatta. Starfsmannaleigur sjá til þess. En fyrir hvern? Ekki heilbrigðiskerfið, ekki aldraða og ekki öryrkja. Ó nei, heldur markaðinn. Markaðurinn þarf ódýrt vinnuafl. Aumingjar mega fokka sér.
En félagi! ef þú ert Arabi eða Nígeríumaður þá viljum við ekki að þú komir til Íslands, vinnir fyrir þér, hvað þá borgir skatta. Vertu bara heima hjá þér.
– En ég á hvergi heima. Trúarofstækismenn sprengdu upp þorpið mitt og myrtu vini mína.
Heyrðu vinur, ef þú ert ekki Pólverji eða Portúgali eða a.m.k nokkuð hvítur á hörund samkvæmt vegabréfinu þínu þá skaltu ekki koma til Íslands.
– Afhverju ekki?
Því þið fjölgið ykkur eins og rottur. Um leið og við hleypum nokkrum Aröbum inn í landið þá kemur bara flóð yfir okkur og það hentar okkur ekki í næstu kosningum. Það er auðveldara að fela Pólverjana á 17. júní.
– Ég verð á götunni ef þið sendið mig til baka. Ég var bara venjulegur strákur áður en stríðið braust út en þið hafið breytt mér í dýr. Þið hvíta fólkið, sem ég saumaði á þessar skyrtur og jakkaföt, týndi granatepli í bústin ykkar og gróf upp olíu í bílana ykkar. Við höfum þjónað Vesturlöndum í hundruð ára og nú þegar að við biðjum um hjálp þá er það besta sem þið getið gert að senda mig til baka í grimmustu ghettó Evrópu. Þar sem nýnasistagengi ráðast á okkur með hnífum. Því ekki getum við farið heim. Heim er eyðimörk.
SORRY hvað þetta er langt það er bara smá eftir …
Ég hef fundið fyrir ónotatilfinningu síðan við byrjuðum að gera næsta tvöfalda þátt. Sá heitir „Landamæri“. Síðan ég byrjaði á RÚV hef ég reynt að tempra pólitískar skoðanir mínar svo að ákveðnir Framsóknarmenn reki ekki útvarpsstjóra. En stundum verður pólitík að mannréttindum og mannréttindi að pólitík. Og þá verð ég allavega að reyna stöðva ljóninn.
Í dag hef ég fylgst með kerfinu níðast á æru og beinlínis stofna lífi tveggja manna í hættu. Þeir heita Ahmed og Wajden. Á þriðjudag verða þeir sendir til Búlgaríu, þar sem þeir hafa ítrekað verið niðurlægðir og beittir kynþáttaofbeldi af samfélaginu og ríkinu.
Wajden bauð okkur heim til sín, þar sem fjöldi manna af óheppilegu bergi brotnu mega húka í símunum með sín thousand yard stare og áfallastreituröskun að bíða eftir hringingu frá Útlendingastofnun á meðan þeir scrolla eftir lífsmarki frá fjölskyldum sínum og vinum.
Ahmed bauð okkur uppá falafel og kebab á Ali Baba í Spönginni. Hann er ’93 módel. Yngri en Logi bróðir. Logi Pedro er vinur vina sinna. Vinir Ahmed hafa meira og minna verið myrtir af öfgaöflum í Sýrlandi. Báðum langar þá að byrja uppá nýtt, lifa lífinu með sæmd í nýju landi. Vinna fyrir sér og eignast fjölskyldu.
Hvort ætlum við að halda með þessum framtíðar íslensk/sýrlensku fjölskyldum eða Búlgaríu og kynþáttaofbeldi? Þetta er einfaldlega spurning um mannréttindi. Ferðafrelsi eru mannréttindi. Mústafa á jafnmikinn rétt á að flytja til Ísafjarðar eins og Siggi frændi sem ætlar að setjast að í Bangok án þess að læra tælensku.