Fram til þessa hefur sjálfstæði og ofvirk tískuvitund leikskólabarnsins hamlað því að við eigum mjög mjúka morgna. Þeir hafa einkennst af frekar miklum átökum um hvað sé hlýtt/viðeigandi/sparilegt/í boði þann daginn og skiljanlega miklum harmi og stórum tilfinningum þegar rangar sokkabuxur eru í þvotti.
Þetta er ekki góð leið inn í daginn. Ég reyndi að leysa þetta með því að taka fötin til kvöldið áður … og færði þá átakamómetið (það var ekki í boði hjá barninu að vera ekki með skoðun á þessu) rétt fyrir háttatímann. Það var illskárra.
En svo kom lausnin til mín fyrir algjöra tilviljun. Það er skítkalt flesta daga, eins og þið finnið. Svo þegar við mæðgur komum fram á morgnana er yfirleitt massívur hrollur í okkur öllum. Af rælni fór ég að taka til fötin á leikskólabarnið og leggja þau á ofninn inn í eldhúsi. Þá gerðist kraftaverkið. Það að fötin séu heit og til taks frammi hjá okkur virðist vera nóg til þess að hún horfi framhjá þeirri staðreynd að hún valdi þau ekki sjálf.
Hún meira að segja flýtir sér að klæða sig svo hún geti fundið hlýjuna í fötunum og finnst það geðveikt sport!
Ég veit að þetta mun ekki endast að eilífu, en GMG hvað ég er þakklát fyrir hvern dag sem ég þarf ekki að taka þennan morgunslag. Það kemur meira að segja fyrir að ég kemst brosandi út úr dyrunum.
Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.