Auglýsing

Mottan skapar manninn

Nú stendur Mottumars yfir — árlegt átak Krabbameinsfélagsins gegn krabbameini í karlmönnum. Þessi skemmtilega hefð er búin að festa sig svo rækilega í sessi að við þurftum ekki einu sinni að biðja forsvarsmenn Hvalfjarðarganganna um að setja risamottuna yfir gangnaopið, þeir gerðu það bara.

Frægir, erlendir mottuberar eru þó nokkrir og óþarfi er að tíunda ágæti þeirra í enn eitt skiptið. Við erum að tala um menn eins og Tom Selleck, Burt Reynolds, Hulk Hogan og Sam Elliott. Íkonískir menn sem allir þekkja. En hvaða Íslendingar hafa staðið sig best í að hefja mottuna til vegs og virðingar? Er ekki kominn tími á að skoða það?

Hannes Hafstein var fyrsti ráðherra Íslands, gott og mikið skáld og skartaði stórmannlegri mottu í 19. aldar–stíl. Svo mikið glæsimenni var hann að andlit hans prýddi bæði peningaseðla og frímerki. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að átta sig á því að án mottunnar hefði það aldrei gerst.

Screen-Shot-2015-03-05-at-14.31.22

Halldór Laxness er fyrsta íslenska súperselebið. Hann er talinn einn merkasti rithöfundur Íslandssögunnar, vann Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1955 og var heilt yfir frekar kúl gaur. Honum var skítsama um stafsetningu og kom Mosó á kortið. Halldór var líka með stórglæsilega mottu, sérstaklega þegar hún byrjaði að grána.

Það vita eflaust ekki allir að Halldór hafði megnustu andstyggð á geimförum (óljós tenging við umfjöllunarefni kemur síðar) og skrifaði um þá í ævisögu sinni árið 1963:

Eitt yfirgeingilegast og um leið ömurlegast dæmi frægðar á vorum dögum eru þó veslíngar þeir, kallaðir geimfarar, sem látnir eru í dós, skotið síðan út í loftið og þveitt í tíu tuttugu hringi kringum jörðina. Slíkur starfi er að vísu tilvalinn til frægðar fyrir tíkur og apa.

Rólegur Halldór!

TryggvasonB-84

Eini íslenski geimfarinn, Bjarni Tryggvason, eyddi tólf dögum um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni árið 1997. Og getiði hvað, Bjarni var með tryllta mottu! Hann fluttist að vísu frá Íslandi aðeins sjö ára gamall og er búinn að glata íslenskunni fyrir lifandis löngu. En samt, íslenskur er hann og því fær hann að vera með. Hann fór meira að segja með tíu pínulitla, íslenska fána með sér upp í geim.

Screen-Shot-2015-03-05-at-14.29.24

Höldum okkur við afrek mottuprúðra Íslendinga í útlöndum. Körfuknattleiksmaðurinn Pétur Guðmundsson fékk fyrstur Evrópubúa að spreyta sig í bandarísku NBA–deildinni og spilaði þar meðal annars með sjálfum Magic Johnson. Hann var í þremur liðum í deildinni; Portland Trail Blazers (1981–1982), Los Angeles Lakers (1986–1987) og núverandi NBA–meisturum, San Antonio Spurs (1987–1989).

KR–ingurinn Jón Arnór Stefánsson gerði samning við Dallas Mavericks árið 2003 en fékk aldrei að spreyta sig í deildarleik. Hvernig stendur á því? Nú er Jón Arnór frábær í körfubolta. Hefði hann mögulega getað orðið skærasta stjarna Dallas ef hann hefði verið með mottu?

Það er ekki hægt að fullyrða að glæsileg motta sé skilyrði fyrir því að Íslendingar meiki það en það sakar alls ekki. Leikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson var fyrstur Íslendinga tilnefndur til Óskarsverðlauna. Hann er með mottu. Laddi var fyndnasti maður Íslands (og líklega í heiminum) í kringum 1980. Hann var með mottu. Pálmi Gunnarsson var einn vinsælasti söngvari (og besti bassaleikari) landsins á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Hann var heldur betur með mottu. Þar áður bræddi Haukur Morthens hjörtu landsmanna með ljúfsárum söng og glæsilegri mottu.

Að afskrifa þetta sem tómar tilviljanir er sjálfsblekking. Mottan skapar manninn.

Pistillinn birtist fyrst á vef auglýsingastofunnar Brandenburg en er endurbirtur á Nútímanum með góðfúslegu leyfi.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing