Auglýsing

(Næstum) allt sem þig langar að að vita um ófrjósemisaðgerðir kvenna

Á dögunum birtum við fróðleik um herraklippingar, ófrjósemisaðgerðir karla, sem kveikti forvitnilegar umræður við kaffivélar á nokkrum vinnustöðum. En hvað með konurnar? Við fengum Evu Jónasdóttur fæðingar- og kvensjúkdómalækni á Kvennadeild Landspítalans til að fræða okkur um ófrjósemisaðgerðir kvenna.

Hverjar leita helst í svona aðgerðir?

„Þegar konur fara í ófrjósemisaðgerð eru þær að taka endanlega ákvörðun um að hætta barneignum. Því eru flestar konur sem fara í slíka aðgerð búnar að eiga börn, þær eru þar af leiðandi ekki í upphafi frjósemi sinnar og hafa verið eða eru í sambandi. En bak við hverja konu er mismunandi saga og aðstæður. Í sumum tilfellum getur konan verið haldin líkamlegum eða andlegum sjúkdómi sem getur stofnað konunni eða ófæddu barni í hættu t.d. á meðgöngunni. Félagslegar aðstæður geta verið flóknar og erfiðar sem veldur því að þessi leið er farin þegar getnaðarvörn er valin. Mikilvægt er að konan og maki (sé hann til staðar) fái góða ráðgjöf varðandi aðgerðina og að hún sé gerð að vel íhuguðu máli.“

Hvernig er ferlið í stuttu máli?

„Samkvæmt íslenskum lögum þarf konan að sækja um ófrjósemisaðgerð á eyðublaði sem gefið er út af Embætti landlæknis. Hún þarf að vera orðin 25 ára, nema aðrir læknisfræðilegir eða félagslegir þættir komi til. Hægt er að sækja um aðgerðina með hjálp kvensjúkdómalæknis á stofu sem sendir beiðni á sjúkrahús sem framkvæmir aðgerðina. Ófrjósemisaðgerðin er gerð með kviðarholsspeglun í svæfingu eða í tengslum við fæðingu, og þá í keisara ef konan fer í fyrirfram ákveðinn keisara.“

Og hvað er gert nákvæmlega? Hver er fjarvera frá vinnu eða öðrum störfum?

„Konurnar koma að morgni aðgerðardags á spítalann og eru útskrifaðar aftur sama dag, gangi allt vel. Aðgerðin sjálf tekur stuttan tíma, innan við klukkustund. Konurnar eru svo 1-2 klst að jafna sig eftir svæfinguna. Eftir að þær koma af vöknun, niður á deild, viljum við að þær fái sér aðeins að borða eða drekka og séu búnar að pissa áður en þær fara heim. Þannig að ef aðgerðin er fyrir hádegi eru þær yfirleitt komnar heim seinnipartinn. Ófrjósemisaðgerðir eru gerðar með nokkrum aðferðum. Eggjaleiðararnir eru teknir í sundur, þeim lokað með klemmu eða fjarlægðir alveg. Þannig er komið í veg fyrir að sæði komist upp í eggjaleiðarann og að eggi konunnar. Því verður ekki frjóvgun á egginu og engin þungun. Þegar aðgerðin er gerð í tengslum við keisaraskurð er konan oftast vakandi og aukainngripið við ófrjósemisaðgerðina minniháttar. Annars er gerð kviðarholsspeglun í svæfingu. Konur eru að jafnaði 1-2 daga að jafna sig eftir aðgerð og geta farið að sinna daglegum störfum innan fárra daga, gangi allt vel.“

Hversu langur biðtími er eftir aðgerð?

„Biðtíminn eru eins og staðan er núna nokkrir mánuðir.“

Hverjir eru viðstaddir aðgerðina?

„Töluvert af starfsfólki er viðstatt aðgerð á skurðstofu. Það eru kvensjúkdómalæknir sem framkvæmir aðgerðina, svæfingalæknir, svæfingahjúkrunarfræðingur og skurðstofuhjúkrunarfræðingar. Ef aðgerðin er framkvæmd á háskólasjúkrahúsi eru þar líka deildarlæknar og nemar; bæði læknanemar og hjúkrunarnemar sem fylgja sínum leiðbeinendum í þjálfuninni.“

Hefur þetta áhrif á kynlífið eða samlíf hjóna/para?

„Þegar konan hefur jafnað sig eftir aðgerðina hefur þetta ekki áhrif á kynlífið. Ekkert er búið að skerða eða hafa áhrif á hormóna konunnar. Eggjastokkarnir eru ekki snertir og hún hefur egglos og blæðingar líkt og áður.“

Hvenær er í lagi að stunda kynlíf eftir aðgerðina?

„Rétt er að bíða með kynlíf í nokkra daga á meðan konan er að jafna sig eftir aðgerðina hafi hún farið í kviðarholsspeglun. Eftir keisara og ófrjósemisaðgerð, sem er mun stærra inngrip þarf að bíða aðeins lengur, a.m.k. í 3 vikur eða þar til konan er sjálf tilbúin að byrja að stunda kynlíf.“

Hver er kostnaðurinn við aðgerðina?

„Aðgerðin er konunni að kostnaðarlausu skv. lögum.“

Mega allar konur fara í ófrjósemisaðgerð? Líka ungar og barnlausar konur?

„Samkvæmt lögum þarf kona að vera orðin 25 ára til að fara í ófrjósemisaðgerð. Hún þarf eins og áður segir að fylla út umsóknareyðublað landlæknis sem læknir síðan skrifar einnig undir. Ráðgjöf og viðtal eru fyrir konur sem þess þurfa. Sé konan ekki orðin 25 ára eru ákvæði um að læknisfræðilegar ástæður þurfi að vera til staðar. Þá eru það atriði eins og að heilsu konunnar eða/og barnsins sé hætta búin af meðgöngu og fæðingu. Félagslegar aðstæður, geðrænir sjúkdómar og skert geta til að annast barn hafa einnig áhrif.“

Geta konur neitað ráðgjöf? Eða geta læknar neitað að skrifa undir umsóknir fyrir þær?

„Ófrjósemisaðgerð er ákvörðun konunnar. Hún þarf enga ráðgjöf nema að hún óski sérstaklega eftir því. Eyðublaðið sem fyllt er út og skrifað undir er formsatriði og notað til að halda utanum fjölda ófrjósemisaðgerða sem gerðar eru í landinu. Það er kannski helst að þurfi ráðgjöf þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. ef kona er undir 25 ára, eða ef ófrjósemisaðgerð er gerð á grunni félagslegra eða læknisfræðilegra ástæðna. Læknar eru ekki að neita konum um ófrjósemisaðgerðir, það er alveg af og frá og þetta er heldur ekki geðþóttaákvörðun þeirra hverjar komast að og hverjar ekki. Sé konan eldri en 25 ára er þetta einungis hennar ákvörðun og sé hún undir 25 ára er þetta rætt aðeins betur sökum ungs aldurs.“

Er hægt að snúa við afleiðingum aðgerðarinnar … fara til baka?

„Nei, aðgerðin er óafturkræf og mjög örugg sem endanleg getnaðarvörn. Þegar eggjaleiðarinn er tekinn alveg í sundur ættu líkurnar á því að hann endurtengist að vera hverfandi. Sé hann tekinn alveg í burtu eru líkurnar auðvitað alls engar. Þegar settar eru klemmur hefur það örsjaldan sést að klemmur detta af, en oftast er þá eggjaleiðarinn orðinn alveg lokaður. Þannig að þegar þú spyrð hvort dæmi séu til, er svarið játandi en það er auðvitað gríðarlega sjáldgæft. Það er svolítið vandmeðfarið að svara þessari spurningu þannig að það skiljist hversu litlar líkur eru á þessu vandamáli, annað en að segja að öryggi sé nánast 100%.“

 

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing