Auglýsing

Netflix og núðlukrydd

Þegar ég fæddist fékk ég vöggugjöf frá föður mínum. Eða kannski ekki vöggugjöf, hann gaf mér þetta sennilega áður en ég komst í vögguna. Hann gaf mér ekki hæfileika sína til að syngja, semja ljóð eða vera góð í fótbolta. Hann gaf mér augabrúnir. Samtengdar, dökkar, augabrúnir – að ógleymdu yfirvaraskegginu. Sem verður að teljast einstaklega óheppilegt þar sem að ég er kvenmaður.

Ekki nóg með það heldur hefur mér í gegnum tíðina tekist að þróa með mér svokallað „tíkarfés í hvíldarstöðu“ eða „resting bitchface“. Þessi blanda fer ekki vel saman. Eða fór a.m.k. ekki vel saman á meðan ég vissi ekki hvaða kraftaverk plokkari gerði. Ótrúlegt að ég hafi ekki eignast kærasta þegar ég var 14 ára.

En það er einmitt með þessar augabrúnir. Maður þarf að læra að plokka aðeins frá til þess að sjá betur. Og það er svolítið eins með þennan flutning til útlanda. 
Þeir sem ekki eru sambrýndir geta betur skilið þetta svona: Fyrir fullt af skít hérna í útlöndum færðu bara smá pappír. 
Að finna íbúð, í París eða hvaða stórborg sem er, er eins og að reyna að finna nál í heystakki. Nema nálin er glær. Og heystakkurinn er 300.000 fermetrar (sem er sennilega 299.999 fermetrum stærra en íbúðin sem þú munt sennilega ekki finna). Og þú hefur engar hendur.

Þannig er húsnæðisleitin hér, en hún er sennilega verri í Reykjavík þar sem þú færð 70 fermetra íbúð á heilar 150 þúsund krónur á mánuði. Ég borga það sama fyrir 17 fermetra hér.

Svo getur þú líka fengið allt sem þú vilt hérna í París: Örbylgjuofninn fyrir ofan sjónvarpið og sturtan þar við hliðina. Búmm. Þarna kemur hinn langþráði draumur að geta sett í örbylgjuofninn og hoppað beint inn í sturtuna. Passaðu þig bara vel á því hverjum þú býður í heimsókn ef þú átt eftir að fara í sturtu, þá gæti þetta orðið í versta falli pínu óþæginlegt fyrir báða aðila.

Annars er mergur málsins sá (mergur er alveg hræðilega eyrnamerkt orð) að flutningur erlendis er ekki alltaf dans á rósum. Eða á Eiffel-turnum í mínu tilfelli. Þó get ég sagt að allt mitt bóklega nám (sem ég er búin að eiga við meira og minna allt mitt líf) hefur aldrei kennt mér jafn hrikalega mikið og þessi reynsla. Það þýðir samt ekkert að ég ætli að setja „studied at skóli lífsins“ á Facebook. En ef ég mundi gera það mundi ég skrá mig sem skólastjóra. En þá myndu vinir mínir og kærastinn minn sennilega afneita mér.

Einn annar yfirleitt óumflýjanlegur hluti af þessum útflutningum er hin sanngjarna stofnun LÍN. Lánasjóður íslenskra námsmanna. Þeir sem ekki þekkja reglur LÍN eru þær svo hljóðandi: Ef þú ert í þann mund að fara á þitt annað eða þriðja ár í námi máttu ekki hafa meira en 930.000 krónur í tekjur það árið án þess að lánin skerðist. Þá erum við að tala um fyrir skatt.

Vissulega vilja allir kennarar meina að fullt háskólanám sé 100% vinna og ráðleggja þér að vinna ekki með. En með fullt námslán: 600 þúsund á önn, þ.e. ef þú ert í leiguhúsnæði, þá er það (leyfist mér að segja) frekar dapur lífstíll til lengdar (ef við reiknum með að 350 þúsund eða meira fari í leigu). Nú vil ég passa að við séum öll hérna á sömu blaðsíðu en ég er að sjálfsögðu að tala um 600 þúsundin sem LÍN er að gefa öllum námsmönnum landsins … Ekki lánin sem þau veita og þarf að borga til baka með vöxtum…

Það er eins og LÍN skilji ekki að núðlur verða leiðingjarnar. Ég tala nú ekki um hvað sjálfsvirðingin styrkist þegar maður keyrir fullri körfu af Yumyums að kassanum. 
Þó að maður leyfi sér að bomba í naut og bernaise tvisvar á ári og kannski bíó. Eða nei samt ekki bíó, maður þarf eiginlega að taka yfirdrátt fyrir svoleiðis. 
En þá kemur lausnin: Þú getur unnið með skólanum til þess að geta leyft þér aðeins extra! En þá færðu minna á móti frá LÍN og þarft þá að vinna meira og þá færðu minna frá LÍN. Þið skiljið.
 Eins og bróðir minn, Vilhjálmur Bragason, orðaði svo vel eitt sinn: „Ef helvíti er til er LÍN sennilega með útibú þar einhverstaðar“.

Ef við tökum alveg random dæmi. Ung, eða tiltölulega ung dama, safnar fyrir flutningum til Parísar. Í dýrustu borg í Evrópu duga námslán LÍN svolítið svona eins og fyrir helgarferð. En vitir menn, þegar út er komið eru dugnaðarverðlaun LÍN veitt; daman fær helmingi lægri námslán því að hún asnaðist til þess að vinna 100% vinnu með skólanum árinu áður. Af hverju fékk hún sér ekki bara Netflix og safnaði fyrir nýjum núðlukryddum?
 Svona getur maður alltaf verið vitur eftir á.

En ég ætla bara að vera dugleg að plokka augabrúnirnar mínar og taka LÍN af jólakortalistanum í ár.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing