Auglýsing

Níu ráð fyrir foreldra sem klúðra myndatökum, komdu nær og ekki segja síííís

Hvort sem þú ert með súperfínan snjallsíma eða æðislega flotta myndavél þá er auðvelt fyrir suma að klúðra myndatöku. Hér eru nokkrar vinsamlegar ábendingar frá ljósmyndurum fyrir alla þá sem eiga það til að klúðra myndum af ástvinum sínum, vinnufélögum, djammsystrum, kettlingum eða jafnvel myndum af fjöllum.

 

1. Vertu í augnlínu

Það þýðir að þú þarft að beygja þig niður þegar þú tekur myndir af lágvaxnara fólki – eða standa upp á stól ef viðfangið er hávaxið. En það munar öllu að horfa beint á fyrirsæturnar. Þú sérð það strax, prófaðu bara.

2. Síííís er ekki málið

Upphrópunin síííís framkallar mjög stíft bros. Prófaðu heldur að biðja fólk að segja „salamí“ eða „rassálfar“ eða eitthvað annað hlægilegt og smelltu af þegar þau eru búin að segja orðið. Breyttu til, segðu brandara. Mikilvægast er að fá fólk til þess að slaka aðeins á. Og það þarf ekki alltaf að brosa, það má líka taka myndir af fólki sem er bara venjulegt í framan.

3. Allt snýst um rammann

Horfðu á heildarmyndina í tækinu þínu. Er skræpótt veggfóður fyrir aftan ömmu þína? Er ruslapoki inn á myndinni? Einhver með opna buxnaklauf? Gefðu þér þær sekúndur sem þú þarft til þess að finna rólegan bakgrunn og færa truflandi hluti úr sjónlínu. Það vill enginn vera með biðskylduskilti upp úr hausnum á sér.

4. Komdu nær

Þú ert yfirleitt að skrásetja andlit. Augu og munnar eru mikilvægari en hné. Leyfðu fyrirsætunni/unum að fylla út í rammann. Þá þarft þú ekki að hafa neinar áhyggjur af girðingunni, bílnum, skiltinu eða hestrassinum sem vill lauma sér inn á myndina þína.

5. Leikmunir hjálpa

Krakkar bregðast vel við því óvænta – prófaðu að nota leikföng, búninga eða bara eitthvað annað sem fær þau til þess að vilja leika sér. Líflegri aðstæður, hressari krakkar, betri myndir.

6. Tímasetning, tímasetning, tímasetning

Þetta snýst ekki bara um rétta augnablikið. Tími dags getur skipt sköpum. Ef taka á myndir af krökkum þá er vert að huga að því hvenær þau gætu verið í mestu stuði – og ekki búin að subba sig öll út, týna spennum, skóm eða framtönnum. Taktu myndir áður en veislan byrjar eða strax eftir matinn, taktu myndir rétt eftir blundinn (ef fólk er ekki grumpy þá). Gefðu fólki smá stund til þess að taka sig til fyrir myndatökuna, margir kunna að meta það. Og ekki taka myndir af fólki að borða eða með óhreinan disk fyrir framan sig.

7. Snúðu fólki upp í ljósið

Náttúrulegt ljós er best. Finndu leið til þess að láta það ljós skína framan í fyrirsæturnar þínar. Hættu að stilla fólki upp með bakið í næsta glugga. Ágeng birta af sterkum ljósum gerir engum greiða, færðu til fólk eða hluti, við erum ekki tré. Ekki hika við að nota flash í mikilli sól eða harðri birtu. Flashið eyðir ljótum skuggum og gerir alla sætari.

8. Á hæðina eða breiddina?

Það er oft áhrifaríkara að mynda fólk lóðrétt (vertical) fremur en lágrétt (horizontal). Ef þú myndar lágrétt skaltu ekki miðjusetja viðfangið í rammanum heldur beita þriðjungsreglunni (rule of thirds) til þess að gera myndina áhrifameiri. Til þess er mjög heppilegt að nota “grid-ið” sem finna má í nær öllum símum og myndavélum.

9. Fleiri er betra en færri

Gefum okkur að þú sért ekki að nota filmuvél. Taktu bara fullt-fullt-fullt af myndum. Þú þarft ekki að spara við þig þarna. Burst-fítusinn á snjallsímum er snilld fyrir stórar hópmyndatökur og þegar þú vilt ná góðri mynd af krökkum á fleygiferð. En vertu dugleg/ur að eyða strax, þú vilt hafa pláss næst þegar eitthvað alveg magnað gerist.

 

Nútíminn foreldrar er ný síða helguð þessu risavaxna hlutverki. Lækaðu okkur á Facebook og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing