Dóttir mín er farin að nota röksemdina: „Ég las það á internetinu.“ Hún er fjögurra ára að verða þrettán og hún kann ekki að lesa. Eða, hún getur í það minnsta ekki lesið sér til gagns, t.d. á götuskilti eða dagblöð. Svo hér eru nokkur atriði sem ég vil gjarnan að dóttir mín viti. Hún er með valkvæða heyrn svo kannski er best að hún lesi þetta bara hér.
1. Ég er með þér í liði!
Þó það sé ekki augljóst eða áberandi í þínum huga þá er ég með þér alla leið. Í horninu þínu; klappstýra númer eitt, tvö og þrjú. Ég er kannski manneskjan sem mun hvað oftast banna þér að gera eitt og annað, og líklega tuða ég oftar í þér en nokkur annar en ég geri það allt af ást, og þrjósku og von um að þú gerir frekar ný mistök heldur en þessi sömu sem ég gerði kannski.
2. Ég veit alveg af hverju þú ert með valkvæða heyrn
Einu sinni var ég krakki líka. Últra-skynsamur, feiminn og meðvirkur krakki. Ég hefði elskað að eiga þig fyrir vinkonu – það er svo mikið fjör í þér.
3. Þó þú sért barnið mitt þá ferðu alveg svakalega í taugarnar á mér
Það ýtir enginn á takkana mína eins og þú. Þú spilar á mig eins og harmonikku! Og það er aðallega þegar ég kannast við eitthvað óþolandi úr mínu eigin fari hjá þér. Svo í raun ert það ekki svo mikið þú sem ég pirrast yfir heldur ég sjálf. En sjálfhverft af mér, sorrý með það.
4. Áhugi þinn á tísku, útliti og vörumerkjum hræðir mig
Þú ert bara fjögurra ára. Ertu til í að endurskoða áhugasvið þitt og hafa frekar áhuga á kettlingum, Einari Áskel og muffins?
5. Þú ert fyndnasta manneskja sem ég hef nokkru sinni kynnst
Ekki segja systur þinni það en mér finnst þú miklu fyndnari en hún. Ef hún fær líka þennan stórkallalega smitandi hlátur þá veit ég ekki hvar þetta endar. Því hláturinn lengir lífið og ég verð ábyggilega hundrað og fjörtíu ára.
6. Notaðu sólarvörn
Það segja þetta allir. Þetta er það sem framtíðin vill að þú vitir: ekkert er tryggt nema dauði, skattar og útfjólublá geislun. SPF50 og sólgleraugu, alla daga.
7. Ég elska þig bókstaflega
Þegar ég segist elska þig upp í út í geim, kringum tunglið og aftur heim þá meina ég það bókstaflega. Ég myndi fara út í geim, á sporbaug um tungið og aftur heim fyrir þig. Ég vona samt að ég þurfi aldrei að gera það því ef ég kemst út í geim, þá vil ég að þú komir með mér.
8. Plasthælaskórnir þínir sem blikka eru ekki töff
Ég veit að þeir eru Frozen og tveimur númerum of stórir en það gerir þá ekki töff. En það eru mannréttindi að fá að velja sín eigin tískuslys svo ef þú vilt plampa á þessum plaststultum, með allri þeirri slysahættu og töfum sem því fylgir, þá gjörðu svo vel. Ég skal bara plampa á eftir þér með blöndu af afsökunarbrosi, vandlætingu og stolti. Ég er mamma þín, ekki stílistinn þinn. En mögulega munu þessir skór týnast einhvern daginn og það verður smá mér að kenna.
9. Það gleður mig ósegjanlega hvað þú elskar systur þína mikið
Það skiptir svo miklu máli að eiga makker í lífinu. Hún á þig og þú hana og ég vona að þið getið alltaf stutt hvor aðra. Stelpur þurfa að gera það og standa saman. Maður kemst svo stutt bara einn og sjálfur og lífið er best í góðum félagsskap. Svo er svo gott að eiga trúnað einhvers sem skilur aðstæður ef foreldrar manns eru alveg óalandi og óferjandi.