Auglýsing

Nútíminn er eins árs og hér er pistill fullur af óþolandi sjálfshóli

Nútíminn er eins árs í dag og ég verð að segja að þetta er búið að ganga miklu betur en ég bjóst við.

Nútíminn varð til á frekar stuttum tíma. Ég fann mér ekki nógu skemmtilega vinnu og ákvað því að búa hana til. Við erum tveir á bakvið Nútímann: Ég sé um fréttirnar og Guðmundur Sigursteinn. Jónsson sér um tæknilegu hliðina. Þið væruð ekki að lesa þetta án hans ómetanlega framlags.

Nútíminn hefur frá stofnun sótt 50 um 75 þúsund gesti á viku. Við fórum hæst yfir 95 þúsund. Aðsóknin hefur aukist hægt en örugglega. Þetta er allt á réttri leið og við eigum helling inni.

Tvær tilnefningar, tvenn verðlaun

Á þessum tólf mánuðum hefur Nútíminn verið tilnefndur til tvennra verðlauna og unnið þau bæði. Nútíminn var valinn besti vefmiðillinn á íslensku vefverðlaununum í janúar og ég var valinn vefhetja ársins á Nexpo-verðlaununum í mars.

Nútíminn er líka búinn að segja fullt af fréttum og vera fyrstur með sumar. Sú eftirminnilegasta er fréttin af afsögn Hönnu Birnu.

Daginn sem ég var búinn að skrifa fréttina sat ég skjálfandi úr spennu fyrir framan tölvuna. Ég ákvað snemma að vera óhræddur við að birta fréttir samkvæmt traustum heimildum og ég náði ekki í aðstoðarkonu Hönnu Birnu. Ég treysti hins vegar heimildinni og birti eina stærstu frétt ársins, á undan öllum hinum, og hún sagði af sér nokkrum klukkustundum síðar.

Nútíminn sagði líka frá komu Beyoncé Knowles og Jay-Z nokkrum dögum áður en þau mættu. Þá birtist fréttin um að Netflix væri að vinna að því að opna fyrir þjónustu sína hér á landi í október á síðasta ári og hefur í dag verið staðfest á vef afþreyingarrisans.

Lesendur taka þátt

Lesendur hafa líka verið duglegir við að senda inn ábendingar um áhugaverðar fréttir. Árvökull lesandi sendi okkur til dæmis mynd af Hollywood-stjörnunni Gerard Butler að koma öldruðum ferðamanni til hjálpar á háhitasvæðinu við Seltún í Krýsuvík í september í fyrra.

Við fengum líka ábendingu þegar þingmaðurinn Ásmundur Einar Daðason ældi út um allt í flugi Wow Air til Washington með utanríkismálanefnd Alþingis. Hann hafnaði því að hafa verið ölvaður í samtali við DV en Nútíminn er með heimildir fyrir hinu gagnstæða. Ansi sérstök frétt.

Lesendur eru samt duglegastir við að koma með góðar ábendingar um örskýringar, sem eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem er mikið fjallað um.

Mest lesna fréttin #FreeTheNipple

Mest lesna fréttin í stuttri sögu Nútímans fjallaði um þegar Hraðfréttakonan Steiney Skúladóttir frelsaði geirvörtuna í Hraðfréttunum í Sjónvarpsins. #FreeTheNipple byltingin hafði vakið gríðarlega athygli og þúsundir kvenna tóku þátt með einum eða öðrum hætti.

Nútíminn birti fyrstu fréttirnar af byltingunni sem hófst á Twitter og rataði síðar í alla helstu fjölmiðla landsins. Og fjölmarga fjölmiðla erlendis.

Nútíminn er frétta- og afþreyingarmiðill. Við höfum því stundum farið óhefðbundnar leiðir til að koma fréttatengdu efni á framfæri. Popplögin sem snillingurinn Stony hefur útbúið fyrir okkur eru gott dæmi um það. Gerðiþaðekki, með Sveinbjörgu Birnu í aðalhlutverki, sló í gegn í mars.

Og Gunnar Bragi fylgdi í kjölfarið í júní með eigið tónlistarmyndband sem fékk einnig gríðarlega mikið áhorf.

Nútíminn segir fréttir af fólki. Nútíminn gerir það sem honum sýnist en fer aldrei yfir strikið. Nútíminn segir satt og gefur engan afslátt af faglegum vinnubrögðum þó yfirbragðið sé létt. Nútíminn er með húmor og er ekki hræddur við að nota hann.

Ég vil þakka lesendum fyrir samfylgdina á þessu fyrsta ári í sögu Nútímans. Ég vona að þið haldið áfram að lesa, hafa samband, koma með ábendingar, dreifa fréttum á samfélagsmiðlum og auðvitað gagnrýna það sem klikkar.

Án ykkar er Nútíminn ekki neitt.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing