Auglýsing

Nýtt ár — sama takmarkið

Síðustu tvö eða þrjú ár hef ég sett sama takmark um hver áramót: Að troða í körfu.

Ýmislegt hefur staðið í vegi fyrir því að ég nái takmarki mínu. Í fyrsta lagi hefur sú ákvörðun að hreyfa mig ekki frá því í grunnskóla og þangað til ég varð 26 ára ekki hjálpað. Þegar ég sagði letilífinu stríð á hendur þurfti ég nánast að byrja á núlli, þó ég hafi vissulega getað þakkað fyrir tvo fætur og tvær hendur. Fótunum var reyndar haldið saman af lélegum hnjám. Ástand þeirra var algjörlega úr takti við að hafa verið undir skammarlega litlu álagi í meira en áratug.

Stuttu eftir að byrjaði að spila körfubolta á ný fór að bera á miklum hnjáverkjum sem mér tókst ekki að skilja eftir á vellinum. Ég átti erfitt með að fara niður stiga, að sitja lengi t.d. í bíl eða bíó var mikil kvöl en það sem mér þótti verst er að þau héldu aftur að mér á æfingum sem áttu að sjá til þess að ég næði takmarki mínu.

Fyrir tveimur árum ákvað ég að gera eitthvað í málinu og fór til læknis. Eftir röntgenmyndatöku lá niðurstaðan ljóslifandi fyrir:

Það voru töluverðar bólgubreytingar við festusvæðið á infrapatellar sininni á apex patella. Ekki nóg með það, þá voru svolítið diffusar signalbreytingar sem merki um degenration perifert í bæði mediala og laterala menisk.

Þá sást svolítil subchondral sclerosa við mediala liðbilið og perifert um miðbikið var örlítill subchondral bjúgur. Svo var fremra krossbandið óreglulegt og með signalaukningu — en þó heilt að sjá.

Semsagt, kaldhæðnislegasta mögulega niðurstaða: Jumpers knee. Hopparahné.

Læknirinn, sem við skulum kalla dr. Real Talk, var ekki hughreystandi: Lítið í þessu að gera. Bíta á jaxlinn, svo ég vitni beint í hann. Ég haltraði út á meðan ég hugleiddi að leggja árar í bát. Gefast upp.

Það var ekki í boði og í kjölfarið var allt reynt: Allskonar vörur sem áttu að byggja upp brjósk, rúlla IT-bandið, æfingar sem miðuðu sérstaklega að því að styrkja vöðvana í kringum hnén en einhvern veginn endaði það alltaf þannig að ég tók mikið af verkjalyfjum fyrir körfuboltaæfingar ásamt því að smyrja þeim á hnén, notaði allskonar hlífar og stundum tvær í einu. Ekkert af þessu virkaði og ég vældi eins og stunginn grís á æfingum og ennþá meira eftir þær.

Ég var í raun hættur að geta beitt mér, hvað þá stokkið.

Áður en þú lest næstu málsgrein vil ég hafa eitt á hreinu: Ég sel ekki fæðubótarefni og hef engan áhuga á því. Ekki hafa samband við mig til að kaupa neitt. Gúglaðu einhvern annan.

Ég rakst á upplýsingar um kollagen-fæðubótarefnið Berry sem átti að byggja upp brjósk og lina þannig verki. Þar sem ég var tilbúinn að prófa allt (sérstaklega þýsk fæðubótarefni) þá keypti ég þriggja mánaða skammt. Skjóttu mig. Ég var á þingfararkaupi á þessum tíma.

Eftir daglega neyslu í mánuð var daglegi verkurinn í verra hnénu horfinn. Og hann hefur ekki snúið aftur nema í mýflugumynd.

Höfum samt á hreinu að ég er hvorki læknir né vísindamaður. Hnén eru ennþá viðkvæm. Ég þarf að kæla þau reglulega. Það er alls ekki búið að laga þau. Ég get hins vegar ekki útskýrt af hverju ég spila körfubolta tvisvar í viku og fer í Víkingaþrek í Mjölni fjórum sinnum í viku tveimur árum eftir að ég þurfti að styðja mig við handrið til að labba niður stiga.

Þessi læknir hefur til dæmis minna en enga trú á þessu dóti en ég er að skemmta mér allt of vel til að skemma þessu meintu placebo-áhrif.

Þegar ég var sem verstur í hnjánum gat varla stokkið upp í net. Í október í fyrra fannst mér hins vegar komið að því að ég gæti stokkið yfir hringinn, með (fót)bolta í höndunum og troðið. Stórt skref í átt að stóru takmarki. Boltinn þurfti að stækka og stökkið mitt að hækka svo að takmarkið myndi nást en ég var tilbúinn að taka næsta skref:

https://www.youtube.com/watch?v=jg–IB3tuP0

Þetta gekk vel. Smá grín. Þriðja tilraun gekk betur:

http://youtu.be/L2QLx-u4axo

Í fyrra var ég þrítugur, 183 sentimetra blaðamaður með veikbyggð hné og allt of stutta putta til að halda á körfubolta með annarri. Í ár er ég í nákvæmlega sömu stöðu nema aðeins eldri.

Takmarkið í ár er það sama í fyrra og hitteðfyrra. Boltinn þarf bara að stækka og stökkið þarf að hækka.

giphy (5)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing