Auglýsing

OMG á hvað er barnið mitt að horfa? Nokkrar ástæður fyrir því að þú ættir að eyða YouTube-appinu

Að horfa á smábarn upplifa Gummibear-lagið í fyrsta sinn er góð skemmtun. Ég man þá tíð að það eina sem róaði kveldúlfs-krakkann minn, þá svona 4-6 mánaða, voru lagið Manamana með Prúðuleikurunum, fyrrnefndur hlaupbangsi og hárblásarinn. Við eigum ábyggilega einhver 300.000 hits inni á þessum vídeóum. Mest þó Manamana því ég stelst stundum til þess að horfa á það ennþá.

Það er svo auðvelt að rétta barni snjalltæki, en með árunum þróast smekkur þeirra og nú lítur dóttir mín vart við leikjum heldur vill bara horfa á vídeó. Og hún vill horfa á það sem allir eru að tala um. Hún vill horfa á DisneyCollector taka leikföng úr umbúðum og prófa þau, sjá hvaða skran leynist inn í Kindereggjum og glápa á dúkku sem kúkar dóti.

Og það eru gizilljón rásir með efni af þessu tagi svo börn gætu þannig séð horft linnulaust á svona auglýsingaefni ef enginn er á bremsunni.

DisneyCollector, sem sumir halda að sé fyrrum klámmyndastjarna sem býr í Flórída, er með rúmlega átta milljón áskrifendur að sinni YouTube-rás. Í samhengi er fróðlegt að vita að það búa rúmlega 8 milljón manns í Austurríki. Enginn veit í raun hver þessi kona er, en líklega er hún ágætlega stæð fjárhagslega. DisneyCollector-konan setur sumsé inn myndbönd þar sem hún sýnir alls konar leikföng og talar furðulega um þau … á ensku og portúgölsku. Dóttur minni er alveg sama um tungumálið, hún horfir bara dáleidd á þetta.

Gróft áætlað sýnist mér DisneyCollector-konan fá c. 250.000 áhorf á hvert vídeó fyrstu 48 sólarhringana sem það er í loftinu. Hún setur inn 7-8 vídeó á viku og flest þeirra eru komin með milljónir áhorfa – eins og þetta hér þar sem þessi fullorðna kona leikur sér með Gurru grís … og áhorfin eru á sjöundu milljón. Getið þið ímyndað ykkur hversu mörg börn eru að horfa á myndböndin hennar akkúrat núna?

 

Ok, áhugavert.  En svo eru það egg með allskonar drasli inní. Sem dæmi um slíkt myndband er hér eitt með lítil 800 milljón áhorf. Og það er 53 mínútur að lengd. Ég er ekki að grínast.

Þarna er greinilega eitthvað mjög sérstakt í gangi, ekki bara leirinn og allt plastið heldur líka talningin á áhorfunum. En talningin er lykilatriði í útbreiðslu myndbandanna og því að þau rata hratt í feed-ið hjá saklausum börnum sem kannski eru bara að horfa á gamlar klippur úr Áramótaskaupinu eða hlusta þar á „Þannig týnist tíminn“ og allt í einu … BAMM – þau eru orðin háð Kindereggjum og leikfangaauglýsingum eins og verstu krakksjúklingar.

Steininn tók úr þegar ég spottaði the síðan vídeóin sem kennd eru við Elsu og Spiderman. Sjá hér, og forlátið furðulegheitin:

https://www.youtube.com/watch?v=5F4WrhzX-ZU

Þessu myndbandi var hlaðið upp fyrir örfáum dögum og það er þegar komið upp í tæplega 6 milljón áhorf. Ég þarf ekki að útlista fyrir ykkur hversu brenglað þetta myndband er. Þetta mætti með réttu kallast klám miðað að krökkum. Og foreldrar út um allan heim eru að bilast!

Við eftirgrennslan koma fram alls konar kenningar, m.a. þær að framleiðendurnir séu búnir að finna hina fullkomnu leið til þess að græða á viðskiptamódeli YouTube með því að búa til brilljant [lesist. ömurlegt] innihald og eiga við algóriþmann til þess að dreifa þessu drasli sínu út um allt. Helstu rökin verandi þau að börn séu bestu áhorfendurnir (þau fá ekki nóg, gera engar gæðakröfur, horfa endalaust, vita ekki betur), framleiðendurnir noti persónur sem börnin þekkja og myndböndin séu látbragðsleikin og þannig óháð tungumálum. Krakkar horfa oftar á myndbönd í snjalltækjum og eru því sjaldnast með virka auglýsinga-block í gangi og því séu þau draumaneytendur fyrir bíræfna auglýsendur. Svo þetta fólk, sem samkvæmt internetinu er landfræðilega statt í Hollandi, er búið að finna gullnámuna.

Því miður er engin leið að spá fyrir um hvaða áhrif svonalagað hefur á börnin okkar (einn daginn munu geimverur koma til jarðarinnar og þá geta þeir sem ólust upp við Stubbana talað við þær …). Það verður einhver mannlífstilraun framtíðarinnar. Börn hafa löngum laðast að því sem er aðeins bannað og dálítið forboðið, það er líklega ekki að fara að breytast. En það er okkar hlutverk að tempra aðgengi þeirra að drasli og vitleysu.

Svo. Finnið tækin, eyðið áhorfssögunni, eyðið YouTube-öppunum og öllum ummerkjum um þennan afþreyingarmöguleika. Setjið læsingu á allt saman – sjá leiðbeiningar hér  – og bara lesið fallegar sögur fyrir börnin ykkar í svona mánuð til að vinna á móti þessu mögulega ógeði. Horfum bara á Stundina okkar (ekki Unnar og vin hans – það er djöflasýra) og látum ekki þessa súru Hollendinga hafa okkur og börnin okkar að fíflum!

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing