Auglýsing

Ragnar rúnkar sér reiður

Í frönskuskólanum lærðum við að bera fram: „R“. Ég, verandi Íslendingur, er enginn nýgræðingur í þeim málum og kennarinn var svakalega ánægður með konuna. Þó er franska R-ið aðeins öðruvísi en íslenska R-ið. Hér í París er það borið fram eins og þú sért með eitthvað fast í hálsinum. Eitthvað óþægilegt svona eins og hár sem þú reyndir að kyngja en gast það ekki svo að þú reynir að ná því upp: „Eeeghhhrr.“

Í framhaldinu forvitnast kennarinn um hvers vegna ég sé svona hrikalega góð í þessu. „Er þetta eins í íslenskunni? Donnez-moi une example!“ segir hún.
 Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem kennarinn biður mig að segja eitthvað á íslensku en þó í fyrsta skipti sem að ég þarf að finna upp á setningu alveg sjálf. „Fljót Ingibjörg, segðu eitthvað,“ hugsaði ég.

„Raggi rúnkaði sér reiður.“

Eftir á að hyggja hefði ég auðvitað frekar átt að segja Ragnar. Samnemendum mínum var mjög brugðið en þó ekkert á við hversu mikið mér sjálfri var brugðið við að þetta hafi verið setningin sem ég valdi. En það er svona þegar pressan tekur yfir. Kannski var þetta líka að hluta til Almari í kassanum að kenna. Ég veit það ekki.

Það skildi vissulega enginn hvað setningin þýddi en kennarinn brosti blítt og hrósaði mér fyrir. Lítið vissi hún, greyið. Samnemendur mínir skildu ekki heldur en þeim var mjög brugðið við þessa djöflatungu mína. Í framhaldinu var mér ekki boðið með á Starbucks eftir skóla.

Ég furða mig alltaf jafn mikið hér í París hvað fólk veit lítið um Ísland. Ég ætlast ekki til þess að fólk viti mikið en eitthvað smá; pínulítið, hélt ég að væri eðlilegt. 
Ég hef því ákveðið að það sé undir mér komið að fræða þetta fólk um landið. Það sem samnemendur mínir vita um Ísland er einungis mótað af mér. Ég ræð öllu um þeirra íslensku vitneskju. 
Þetta vald stígur mér stundum til höfuðs og stundum er það algjör byrði.

Allir í skólanum mínum eru nefnilega mjög áhugasamir um Ísland, það vantar ekki. Þegar ég tala um Ísland, er spurð um Ísland eða neydd til að segja eitthvað á íslensku þegir fólk og starir á mig. Eins og þegar ég sagði þeim að það væru ekki lestar á Íslandi. „Hvernig fer fólk eiginlega á milli staða?!“ spurðu þau. „
Á Husky-hundunum okkar vitanlega,“ hugsaði ég um að segja. En það hefði verið leiðinlegt og erfitt þar sem við erum ekki enn þá búin að læra kaldhæðni á frönsku í skólanum.

Ég vildi bara vera svala stelpan frá Íslandi sem flýr eldgos á Husky-hundinum sínum og nærist á hvalkjöti og sviðakjömmum aðeins lengur. En engar áhyggjur, ég er enn þá íslenska stjarnan sem allir vilja spurja um norðurljósin. Það má segja að norðurljósin séu minn versti óvinur. „Googlaðu þetta helvítið þitt,“ hugsa ég oft á tíðum þegar illa liggur á mér og ég er uppiskroppa með lýsingar. 
Versta er að franska er svo kurteist tungumál að þetta skilar sér aldrei eins og vil, heldur hljómar þetta meira svona: „Þér getur hagnast af því að leita að ljósunum á Google og þar með aukið vitneskju þína“.

Um daginn var mér þó allri lokið þegar bekkjarsystir mín spurði hvort jólasveininn byggi ekki á Íslandi? Hvort „heimilið“ hans væri ekki þar.

„Ertu að ruglast á Íslandi og Norðurpólnum?“ spurði ég.
„Er Norðurpóllinn ekki á Íslandi? Eða rétt hjá? spurði hún þá.

Hún var svo glöð og spennt að heyra svar mitt. Hún hreinlega ljómaði og ég sá fyrir mér að ef ég myndi svara sannleikanum samkvæmt yrði hún fyrir svo miklum vonbrigðum að ég fengi samviskubit. Þetta var svona eins og að segja barni að jólasveinninn sé ekki til (sem ég hef gert áður og sé enn þá eftir). En ég sá því fyrir mér að nú væri tækifærið til þess að bæta upp fyrir fortíðina og öðlast sálarró.

„Já jú, jólasveinninn býr á Íslandi og sagan segir að hann taki svo ferjuna yfir á pólinn í vinnutörn í desember,“ sagði ég.

Ég meina, það verða sennilega vonbrigði fyrir konuna að koma til landsins fyrir næstu jól og ætla að sjá verkstæði jólasveinsins á Norðurpólnum en enda svo í jólahúsinu á Hrafnagili. Það gæti líka verið ákveðið sjokk fyrir hana að finna engin hreindýr nema á veitingastöðum bæjarins. En það er þá seinnitíma vandamál. Og svo sannarlega ekki mitt vandamál.

Ég sé ekki eftir neinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing