Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands starfa eftir siðareglum nr. 360 frá árinu 2011. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í svari við fyrirspurn Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, í tengslum við lekamálið árið 2014. Sigmundur sagðist í viðtali við Fréttablaðið í gær ekki hafa staðfest siðareglur síðustu ríkisstjórnar.
Sjá einnig: Sex ummæli Sigmundar Davíðs í Fréttablaðinu sem ég set spurningarmerki við
Sigmundur Davíð hefur verið gagnrýndur fyrir að greina ekki frá aflandsfélagi eiginkonu sinnar og var spurður í Fréttablaðinu hvort málið stæðist siðferðislega skoðun.
„Þær siðareglur sem settar voru af síðustu ríkisstjórn, 2011, höfum við ekki staðfest. En þótt við hefðum gert það hefði það engu breytt, því í þeim er vísað í hagsmunaskráningu þingmanna og þess getið að menn láti ekki eigin hagsmuni hafa áhrif á störf sín,“ sagði Sigmundur í viðtali í Fréttablaðinu.
Það er alveg ljóst, eins og forseti þingsins hefur kveðið mjög skýrt upp úr um, að það er engin bein skylda og ekki ætlast til þess að menn skrái eignir maka í þessari hagsmunaskráningu.
Sigmundur er væntanlega að vísa í þessar siðarreglur hér sem settar voru af fyrri ríkisstjórn árið 2011. Þar segir í 2. grein: „Ráðherra upplýsir um fjárhagsleg hagsmunatengsl eða önnur slík tengsl sem valdið geta hagsmunaárekstum.“
Það er erfitt að túlka eign eiginkonu hans á félaginu Wintris inc. öðruvísi en svo að hún hefði getað valdið hagsmunaárekstrum. Þau eru gift. Félagið átti hundruð milljóna kröfur í slitabú allra stóru bankana sem féllu í hruninu. Fjárhagsleg hagsmunatengsl verða ekki betur skilgreind.
En Sigmundur Davíð sagðist í viðtalinu í Fréttablaðinu ekki hafa staðfest siðareglur síðustu ríkisstjórnar frá 2011. Það hlýtur því að hafa verið einhver annar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sem svaraði fyrirspurn umboðsmanns Alþingis árið 2014 um siðareglur ráðherra. Því sá Sigmundur sagðist starfa eftir þeim siðareglum.
Þar sagði Sigmundur Davíð nefnilega orðrétt:
„Ríkisstjórnin hefur í samræmi við þetta litið svo á að siðareglur nr. 360/2011 eigi við um störf ráðherra og fengu þeir kynningu á reglunum í upphafi starfstíma ríkisstjórnarinnar. Þær eru líka hluti af handbók sem ráðherrar fengu afhenta þegar þeir tóku við embætti.“