Þetta er eitt af fallegustu orðum íslenskrar tungu. Orð sem beygist alltaf eins. Eitt af því sem við erum, fyrir utan að vera í stríði, í skóla, í vinnu eða leik er að við erum samferða í þessu jarðlífi. Göngum lífsins breiðu engi og lokaða stíga, hlið við hlið. Og eitt af því sem gerir þessa stuttu jarðvist okkar betri er samkennd, umburðarlyndi og virðing fyrir samferðafólki okkar.
Öðru hvoru fæðast inní þennan heim verur sem breyta heimi samferðafólks síns til hins betra og jafnvel yfirstíga inn í aldirnar eftir jarðvist sína. Gera heiminn að öllu leyti betri. Þessar einstöku mannverur geta snert líf allra sem þær mæta á jákvæðan og fallegan hátt. Þær eru svo mikilvægar að heimurinn getur gæti núllast út án þeirra. Horfið, dáið út.
Það er alveg afar mikilvægt að þú vitir að ein af þessum einstöku verum ert þú. Og við breytum heiminum okkar ekki með því að plana að gera það daginn eftir. Ekki með því að biðja fyrir einhverju/m heldur að vera reiðubúinn í mómentinu. Og þegar einhver í kringum þig þarnast aðstoðar, sama hversu litla eða stóra, er það þín ánægja að vera til staðar. Það gerist bara í mómentinu.
Með samkennd og greind er hægt að breyta heiminum okkar og samfélagi til hins betra. Ef að þú sérð einstakling á bíl keyra eftir aðrein inn á aðalbraut, hægðu á þér og hleyptu þeim inná brautina. Ekki til þess að fá þakkir fyrir einhvern greiða sem þú varst að gera þeim. Finndu frekar fyrir vellíðaninni yfir því að þú varst að gera heiminn betri. Ef einhver missir eitthvað, taktu það upp og réttu þeim það. Ef einhver gengur í gegnum erfiðleika, hlustaðu og vertu til staðar.
Þannig breytum við heiminum. Þetta er ekkert flókið.