Auglýsing

Sex ummæli Sigmundar Davíðs í Fréttablaðinu sem ég set spurningarmerki við

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er í viðtali í Fréttablaðinu í dag um Wintris inc., aflandsfélag Önnu Stellu Pálsdóttur, eiginkonu sinnar. Viðtalið er langt og ítarlegt en það er þó hægt að setja spurningamerki við nokkrar fullyrðingar Sigmundar.

Nútíminn tók saman sex atriði. Ummæli Sigmundar Davíðs úr Fréttablaðinu eru í stóru letri og athugasemdir mínar fyrir neðan.

 

1. „Þær siðareglur sem settar voru af síðustu ríkisstjórn, 2011, höfum við ekki staðfest. En þótt við hefðum gert það hefði það engu breytt, því í þeim er vísað í hagsmunaskráningu þingmanna og þess getið að menn láti ekki eigin hagsmuni hafa áhrif á störf sín. […] Hagsmunaskáning þingmanna tiltekur félög í atvinnurekstri en það hefur þetta félag aldrei verið. Það er ekki ætlast til þess að menn skrái skuldabréf, hvað þá bréf sem eru töpuð að mestu.“

Sigmundur Davíð er að snúa út úr með því að tala um siðareglur síðustu ríkisstjórnar sem hafa ekki verið samþykktar. Alþingismenn samþykktu siðareglur 18. mars síðastliðinn. Auðvitað náðu þær ekki yfir það sem fór fram árið 2009. Fólk hefur hins vegar velt fyrir sér hvort Sigmundur Davíð hefði ekki þurft að greina frá félagi eiginkonu sinnar, samkvæmt reglunum sem hafa verið samþykktar í dag.

Í 8. grein siðareglanna sem samþykktar voru í mars kemur fram að þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. „Takist þingmanni ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá,“ segir þar.

Í 9. grein kemur svo fram að þingmenn skulu, þar sem við á, vekja athygli á persónulegum hagsmunum sínum sem máli skipta við meðferð þingmála.

Það þarf því ekkert sérstaklega gott ímyndunarafl eða skapandi hug til að túlka þögn Sigmundar á sínum sem svo að þær hefðu brotið siðareglurnar, hefði verið búið að setja þær.

2. „Ég byggi mitt siðferði á lögum og reglum.“

Ég hvet Sigmund til að lesa nýju siðareglurnar, því samkvæmt þeim þarf hann að haga sínum málum öðruvísi ef hann lendir á ný í sömu stöðu og árið 2009.

3. „Ég hef alltaf litið svo á að Íslendingar allir séu kröfuhafar í bönkunum. Stærsti kröfuhafinn er íslenska ríkið, eða Seðlabankinn. Risastórir kröfuhafar eru lífeyrissjóðirnir. Í þessu máli hefur enginn talið ástæðu til að gera sérstaklega grein fyrir hagsmunum sínum. Þó voru þingmenn og fyrrverandi ráðherrar sem eiga gríðarlegan uppsafnaðan lífeyri sem eru líka hagsmunir í þessu máli.“

Stærsti gallinn við stjórnmálaumræðu á Íslandi er áráttan til að réttlæta gjörðir með því að vísa í fyrri aðgerðir pólitískra andstæðinga. Nánast allir eru sekir um þetta. Sama hvar þeir standa í pólitík. Þessi réttlæting forsætisráðherra er ótrúlegt bull og útúrsnúningur af verstu sort.

4. „Ég hugleiddi það ekki sérstaklega, ég hugsa að mér hefði þótt ankannalegt að fara að ræða fjármál eiginkonu minnar við hann [Bjarna Benediktsson].

Fjármál eiginkonu Sigmundar hljóta að vera fjármál hans. Það hefði verið fullkomlega eðlilegt að greina frá því að aflandsfélag í eigu eiginkonu sinnar ætti hundruð milljóna kröfur í föllnu bankanna áður en ríkið myndi að ganga til samninga við sömu banka.

5. „Ég segi bara eins og Jóhannes [Þór, aðstoðarmaður forsætisráðherra] benti á, hann hringdi ekki í þá, þeir hringdu í hann. Hann reyndi að svara eftir bestu getu.“

Hvar benti hann á það? Ég spurði Jóhannes Þór af hverju hann svaraði fyrir Wintris inc. en fékk engin svör.

Á Kjarnanum kemur fram að Anna Sigurlaug hafi veitt aðstoðarmanni forsætisráðherra leyfi til að veita upplýsingar um félagið. Af hverju var hún að því? Og af hverju var hann að svara spurningum fjölmiðla um félag eiginkonu yfirmanns síns? Var það semsagt bara vegna þess að fjölmiðlar hringdu í hann? Getur Nútíminn semsagt hringt í Jóhannes til að fá upplýsingar um fjármál annarra fjölskyldumeðlima forsætisráðherra eða bara eiginkonu hans?

6. Því [Wintris inc.] hefur aldrei verið haldið leyndu.

Gott og vel. En miðað við viðbrögðin við yfirlýsingu Önnu Stellu þá kom tilvist félagsins í besta falli mörgum á óvart.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing