Enginn Íslendingur má lyfta fingri án þess að taka af því mynd og deila með vinum og vandamönnum á samfélagsmiðlum. Instagram er afar vinsæll staður til þess að deila slíkum myndum og einhverra hluta vegna hefur skapast sú hefð að skrifa ófrumlega frasa við myndirnar.
Ég hef aðeins rýnt í hegðun Íslendinga á Instagram og tekið saman þá sjö frasa sem eru þreyttastir. Ég legg til að þessir sjö verði aldrei notaðir aftur.
1. Summer vibes
Ég veit ekki einu sinni hvað þetta þýðir en það eru allir að skrifa þetta við sólríkar myndir.
2. Sjáumst í háloftunum
Sumarstarfsfólk stóru flugfélaganna skrifa þetta undir allar myndir sem birtar þau birta af sér í einkennisbúningi.
3. Brúðkaupsfín/n og Afmælisfín/n
Frasi sem veislugestir í brúðkaupum og afmælum nota undir myndum af sér í fínum fötum. Vel þreytt dæmi.
4. Þessi
Ástfangið fólk notar þennan frasa mikið undir myndir af fólkinu sem það elskar. Því fylgir mjög oft emoji kall með hjörtu í augunum.
5. … og því ber að fagna
Þetta er frasi sem er mikið notaður við myndir af fólki með glas í hönd. Dæmi: „Embla á afmæli og því ber að fagna“
6. Please take me back
Þessi frasi er mjög algengur hjá yngra fólki. Fólk notar hann með myndum af sér á sundfötum í útlöndum. Gjarnan mörgum mánuðum eftir heimkomu.
7. Stranglega bannað að hafa áhyggjur af mér
Þessi frasi er mikið notaður af fólki sem vill grobba sig af því hvað það hefur það fínt í þeim aðstæðum sem það er statt. Oftar en ekki með áfengi í hönd á erlendri grundu.