Af hverju spyrjum við foreldra um hversu þung og löng börnin þeirra voru við fæðingu? Hvaðan kemur sú forvitni? Þessar upplýsingar gagnast okkur ekkert. Erum við að reyna að magntaka þessa tilteknu fæðingu? Fiska eftir því hvort þetta hafi verið verulega erfitt eða bara einhver hnerri? Ég veit ekki einu sinni hvað mörk er.
Ég skil að blessuð börnin fæðast sem óskrifuð blöð. Við vitum næstum ekkert um þau. Þau eru yfirleitt af einhverju kyni, vonandi heilbrigð, annað hvort með eitthvað hár á hausnum eða ekki. Þetta eru nokkur svona grunnatriði sem nýbakaðir foreldrar geta sagt frá til að varpa ljósi á þennan glænýja einstakling. Plús kenningar um hvort viðkomandi er róleg/ur, dugleg/ur eða kát/ur.
Þessar upplýsingar um þyngd og lengd skipta suma í heilbrigðiskerfinu mega-máli. Heilbrigðisstarfsfólk leggur mikla áherslu á að halda þessum upplýsingum til haga og allir fá litla gula bók með sér heim, svokallaða Heilsufarsskrá sem „ávallt skal hafa með þegar barnið kemur á heilsugæslustöðina.“ Ég skil mikilvægi þessarar skrásetningar fyrstu dagana þegar verið er að tryggja að nýburi nærist. En ég skil samt ekki af hverju við erum áfram að sýsla með þetta litla gula blað árum saman, núna árið 2016.
Ég er með tvær svona heilsufarsskrár heima hjá mér – og gæti þeirra eins og sjaldgæfra frímerkja því mér finnst eins og ef mæti ekki með þennan pappír á heilsugæsluna muni starfsfólkið þar álíta að ég sé slæm móðir. Ég týndi nefnilega annarri mæðraskránni minni á meðgöngunni og það var mjööög mikið mál.
Við nánari skoðun kemur í ljós að litli guli bæklingurinn var prentaður hjá Svansprenti árið 1998. Er kannski herbergi á Landspítalanum smekkfullt af heilsufarsskrám, sem voru óvart prentaðar í tryllingslegu upplagi fyrir átján árum? Fyrst þetta eru mikilvægar upplýsingar þá treysti ég því að þær séu skráðar í sjúkraskýrslu barnsins og þeirra verði fremur leitað þar en í handskrifuðu pappírsversjóninni sem mér er gert að passa uppá.
Altént. Börn þurfa að stækka til að þroskast. Það er kyrfilega skjalfest. En eigum við að fara að endurskoða þennan bækling og notkun hans? Ekki? En eigum við að hætta að klifa á því hversu lítil eða stór börnin voru við fæðingu eins og þetta sé einhver píkuþvermálskeppni eða þjáningarmaraþon? Ekki? Ókei. Fine. Ég mæli með appi, það er voða móðins. Kannski appi sem heldur utan um allar heilsufarsupplýsingarnar sem tengjast barninu, ekki bara hæð þess og þyngd og höfuðummál. Kannski með svona checklista þar sem við foreldrarnir getum skráð inn allt hitt mikilvæga dótið sem tengist heilsufari barnsins og sent heilbrigðisstarfsfólkinu afrit af gögnunum ef þau kalla eftir slíku. Bara pæling.
Ég var 52 cm og 16 merkur. Þar hafið þið það.