Auglýsing

Skrýtið að syrgja það sem aldrei varð

Næstum því tveir mánuðir. Í dag eru næstum tveir mánuðir frá því við hjón gengum í gegnum hræðilega erfiða reynslu. Tveir mánuðir frá því við misstum eitthvað sem var svo lítið en hefði getað orðið svo stórkostlegt og yndislegt. Tveir mánuðir síðan fóstrið byrjaði að fara.

Fóstrið sem var að við héldum 9 vikna og 4 daga. Fóstrið sem við sáum nokkrum vikum fyrr í svart hvítu á skjá hjá kvennsjúkdómalækni, sex vikna gamalt í leginu og með hjartslátt. Fóstrið sem hafði misst hjartsláttinn og hætt að þroskast. Sem hafði verið dáið inní mér í einhverja daga eða vikur og við grunlaus um það sem beið okkar.

Sársaukinn, hræðslan, sorgin og máttleysið sem við hjónin gengum í gegnum þessa nótt. Þessa hræðilegu nótt. Ekkert sem við gátum gert, ekki einu sinni verkjastillt. Við hringdum á marga staði og fengum sömu svör, að þessi blæðing þyrfti ekki að þýða að fóstrið væri að fara. Þegar leið á nóttina fórum við að átta okkur á hvert þetta stefndi. Við skoðun á spítala daginn eftir var legholið orðið tómt. Legið sem áður bar fóstur sem veitti okkur gleði, hamingju og tilhlökkun.

Síðustu vikur hafa verið erfiðar og skrítnar. Það er skrítið að syrgja eitthvað sem varla var. Syrgja von og hugmynd um það sem myndi verða. Myndir í huganum af fjölskyldunni sem myndi stækka í september. Hugmynd um hvernig lífið myndi breytast og vaxa.

Framundan er erfitt verkefni og það að segja frá þessari lífsreynslu er hluti af því, hluti af því að ekki gleyma heldur að læra að lifa með henni.
 Læra að virkilega skilja hversu mikið kraftaverk hvert og eitt barn sem fæðist í heiminn er. Að vera þakklát fyrir það kraftaverk sem fyllir líf okkar af svo mikilli gleði hvern einasta dag, tveggja ára orkuboltann okkar.

Þakklát fyrir það að geta orðið ófrísk því það eitt er svo sannarlega ekki sjálfgefið, þó við þurfum aðeins að hafa fyrir því. Við sáum strax að þetta væri lífsreynsla sem okkur fannst óþarfi að við burðuðumst með ein, þar sem dulið fósturlát er mun algengara en nokkurn grunar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing