Okkur stórfjölskyldunni hlotnaðist sú gæfa að fá litla mannveru sem viðbót í fjölskydutréð í september 2014. Bróðir minn eignaðist son með fyrrverandi kærustu sinni, sem hafði þó slitið samvistum við hann þegar meðgangan var hálfnuð. Móðir drengsins var komin í nýtt samband við komu hans í heiminn, svo samkvæmt lögum féll forsjá og lögheimili til móður. Nýfæddan son sinn sá bróðir minn fyrst á mynd á facebook þó svo að hann hefði tekið sér frí úr vinnu svo vikum skipti og verið til staðar til þess að koma og hitta litla drenginn sinn eins fljótt og móðir hans treysti sér til þess að fá hann í heimsókn á fæðingardeildina. Drengurinn er feðraður bróður mínum, og eftir því sem tíminn líður líkist litli snáðinn föðurleggnum meir og meir (af myndum að dæma).
Gleðin yfir fyrsta titli foreldra okkar sem amma og afi, bróður míns sem föður og okkar systkina hans sem föðursystkina hefur smám saman orðið að tregafullri sorg. Sorg sem fyllir hjörtu okkar. Við áfallið, sambandsslitin í ljósi vaxandi lífs, þjöppuðum við okkur saman og studdum hvort annað. Við höfum lagt mikla áherslu á að styrkja bróður minn í sínu erfiða hlutverki, að vera í raun syrgjandi faðir lifandi barns, en gerðum okkur ekki grein fyrr en nýlega að stórfjölskyldan er öll syrgjandi. Það er lítið barn í fjölskyldunni sem við getum ekki umgengist með eðlilegum hætti. Litli drengurinn var skírður á vetrarmánuðum 2014 en föðurfjölskyldan var ekki velkomin í skírnina og faðir drengsins frétti fyrst af nafni sonar síns í gegnum smáskilaboð frá móður drengsins.
Fögur fyrirheit voru í hugum okkar allra, við ætluðum að sinna litla frændanum/syninum/barnabarninu eins vel og mögulegt væri miðað við aðstæður, þeas. þrátt fyrir að foreldrar hans væru ekki í sambandi. Við treystum því að vel sé hugsað um drenginn af móður hans og stjúpföður og efumst ekki um að honum sé sinnt af kostgæfni. Við getum þó ekki litið framhjá þeim nístandi sársauka að bróður mínum sé neitað að fá son sinn í umgengni, og þá er einungis um að ræða tvo til þrjá klukkutíma í senn. Faðir drengsins hefur fengið leyfi til þess að heimsækja son sinn á heimili móður hans og stjúpföður en með hækkandi aldri og auknu mikilvægi þess að faðirinn byggi upp örugg tengsl við son sinn þá er það óásættanlegt að barnið þurfi að upplifa þær þvingandi aðstæður sem myndast við komu bróður míns inn á heimili fyrrum kærustu sinnar og núverandi kærasta hennar.
Möguleikar okkar fjölskyldunnar til þess að kynnast drengnum og byggja grunninn að góðum tengslum við hann fara þverrandi. Drengurinn á tvo kynforeldra – og tvær blóðskyldar fjölskyldur sem vilja sinna honum til jafns. Föðurhjartað er stórt, ekki síður en móðurhjartað. Ófá tár hafa fallið yfir þessari erfiðu stöðu, fullorðinn maðurinn grætur yfir söknuði og sorg yfir því að fá ekki að kynnast syni sínum með eins góðum hætti og hægt er að koma við miðað við búsetu og atvinnu foreldranna. Við föðurfjölskyldan fellum tár yfir því að sjá fram á framtíð barns sem vð getum ekki tekið þátt í með móðurfjölskyldu hans, hvort sem um ræðir daglegt líf, sorgir eða sigra.
Réttur barns til að þekkja foreldra sína er festur í barnalög. Ábyrgðin á því að skapa styðjandi og uppörvandi samband barns við foreldra sína liggur sameiginlega á herðum foreldra. Verkefni sem eflaust er ekki auðvelt þegar um er að ræða foreldra sem slitu samvistum. En ábyrgðin er samt sem áður þeirra og hún gengur framar eigin löngunum um að vilja ekki eiga í samskiptum við fyrrum maka/kærasta.
Tómarúm er í tilfinningalífi okkar stórfjölskyldunnar, skrítin tilfinning sem við náum ekki að koma í veg fyrir þrátt fyrir að reyna að beina sjónum okkar að þeirri góðu gjöf sem innistæða lokaðs bankareiknings drengsins verður þegar hann nær sjálfræðisaldri. Skortur á tengslum við drenginn er það sem svíður mest, og óttinn yfir því að geta aldrei skipað sess í lífi drengsins er óbærilegur.
Þennan pistil set ég inn með það að leiðarljósi að varpa ljósi á þessa erfiðu stöðu margra barna og fjölskyldna þeirra. Langar að biðja alla um að setja ekki inn ljót orð svo skrifin mín missi ekki tilgang sinn. Deilið að vild!