Auglýsing

Það er djöfulli erfitt að vera ekki sexí

Við systurnar í Hljómsveitt fórum í hljómsveitarmyndatöku um daginn og uppskárum mjög fallegar myndir, enda hæfileikaríkur ljósmyndari hún Kristín Pétursdóttur og fallegar stelpur á ferð.

Hins vegar fóru margar hugsanir af stað í þessari myndatöku. Við vildum notast við tyggjókúlur, ís og tíkarspena. Sumir gætu þá lýst því yfir að við værum að kyngera það sem þykir barnalegt. En eiga börn einkarétt á tíkarspenum, tyggjói og ís?

Næst keyrðum við framhjá rauðum sportbíl og sáum okkur knúnar til að smella okkur upp á hann. Héldum að brandarinn væri augljós; gera grín að klisjum en urðum óvart kynþokkafullar í leiðinni.

Næst fer ég í eina af þúsund stellingum þann daginn og systir mín bendir mér á að ég sé að vera mjög kynferðisleg. Ég hafði engan veginn gert mér grein fyrir því og varð fremur ráðvillt í kjölfarið. Hvernig má ég þá vera? Er þetta í lagi? En þetta?

Ég komst að því að það er djöfulli erfitt að vera ekki kynþokkafullur. Á að reyna að sneiða hjá því að vera kynþokkafullur? Það er hvort sem er mission impossible. Vill einhver segja skilið við kynþokka sinn? Er hægt að vera kynþokkafullur án þess að vera hlutgerður? Hver er munurinn á kynþokka og hlutgervingu?

Í skýrslu um hlutgervingu kvenna frá The American Psychological Association er kynferðisleg hlutgerving (e.þ. sexual objectification) skilgreind sem manneskja sem er kynferðislega hlutgerð, breytt í hlut fyrir aðra til að nota í kynferðislegum tilgangi í stað þess að litið sé á hana sem manneskju með getu til sjálfstæðra athafna og ákvarðanatöku. Þannig getur hlutgerving aldrei verið á forsendum þess sem er hlutgerður.

Er kynþokki greindur frá hlutgervingu með því að skoða forsendur viðkomandi?

Af hverju vekja kynþokkafullar konur svo oft upp gagnrýnisraddir? Hugsanlega myndi frelsi okkar til að vera kynþokkafullar aukast eftir því sem konur væru almennt minna hlutgerðar. Mega konur selja kynþokka sinn ef það er á eigin forsendum? Undir hvaða kringumstæðum má vera kynþokkafullur?

Beyoncé er sexí. Má hún það?

Ég kemst ekki hjá því að vera kynþokkafull.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing