Kæra Reykjavík og þið hin í borgarstjórn,
Á hverjum morgni þarf ég eins og langflestir foreldrar í borginni að fara til vinnu. Á hverjum morgni fer sonur minn jafnframt á leikskóla í hverfinu okkar. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru svo sannarlega ákveðin forréttindi að geta skilið við barnið sitt á þeim góðu leikskólum sem Ísland hefur uppá að bjóða og farið inn í daginn með góða tilfinningu í hjartanu. En þar sem ég bý svo vel að búa í svokölluðu velferðarsamfélagi ætti það þá ekki að teljast sjálfsagt að börn eyði deginum á leikskóla þar sem þeim líður vel og þau fá tækifæri til að þroskast og dafna undir handleiðslu fagfólks í öruggu og barnvænu umhverfi? Það hélt ég lengi vel. Nú er svo komið að það er ekki lengur veruleikinn í hinu svokallaða „velferðarsamfélagi“ sem við búum í. Það er nefnilega búið að fjársvelta leikskólana í borginni okkar algjörlega. Einhver sagði mér samt að Ísland væri eitt af 10 ríkustu þjóðum heims en samt eru ekki til peningar til þess að reka leikskólana í borginni okkar?
Ég sem foreldri hef stórar áhyggjur af því sem koma skal ef borgin hysjar ekki upp um sig og grípur í taumana strax til þess að afstýra því ógnarástandi sem nú ríkir á leikskólum borgarinnar. Já, ég segi ógnarástand því skólarnir geta ekki lengur sinnt grunnþörfum barnanna eins og lög gera ráð fyrir. Hagræðiskrafa skóla- og frístundasviðs borgarinnar hljóðar nefnilega uppá 670 milljónir króna og dreifist á skólakerfi sem var þá þegar í algjöru fjársvelti. Hvernig í veröldinni eiga skólarnir að hagræða öllum þessum milljónum þegar það var þá þegar búið að skera þá inn að beini?
Er staðan ekki orðin arfaslæm þegar nánast er orðið ógjörningu að setja saman matseðil sem stendur undir manneldismarkmiðum eða veita börnum þá sérkennslu sem þau eiga rétt á? Á meðan börnum af erlendum uppruna hefur fjölgað mikið síðustu ár hefur fjármagnið til þess að tryggja velferð þeirra hins vegar ekki verið aukið í takt við þetta. Veit borgin okkar ekki að flest eru þau komin til þess að vera og taka þátt í samfélaginu okkar í náinni framtíð? Leikskólum borgarinnar er skylt að skera niður um 80 milljónir króna í sérkennslu. Þetta þýðir að börnin sem þurfa hvað mest á aðstoð að halda fá hana einfaldlega ekki.
Einhver sagði að það væri of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í en hvernig ætlum við að tryggja velferð barnanna okkar í leikskólum sem geta ekki komið til móts við þarfir þeirra sökum fjárskorts. Ég get með engu móti séð hvernig það getur talist sparnaður að draga úr sérkennslu fyrir þau börn sem á henni þurfa að halda. Rannsóknir sýna að snemmtæk íhlutun skiptir sköpum og það getur reynst of seint fyrir barnið ef inngripið kemur ekki í tæka tíð. Það segir sig sjálft að þau börn sem ekki fá aðstoð í tæka tíð gætu átt eftir að kosta þjóðfélagið seinna meira. En samt á þetta að heita hagræðing og sparnaður?
Hversu lengi getum við foreldrar stólað á það að innan veggja leikskólanna starfi gott og faglært fólk sem hefur ánægju af starfi sínu með börnunum okkar? Hvernig er hægt að þróa faglegt starf í umhverfi sem ekki er í jafnvægi sökum manneklu? Álagið á leikskólunum borgarinnar er gífurlegt eða eins og einn leikskólakennarinn sagði: „ Ímyndaðu þér að þið séuð 10 í fjölskyldunni og búið í 70 fermetra íbúð og allir séu heima á daginn. Þannig rými búa leikskólabörn á Íslandi við í 8-9 klukkustundir á dag“. Er hægt að tryggja að börnunum okkar líði vel þar sem starfsumhverfið er spennuþrungið og uppfullt af streitutengdum fjárhagsáhyggjum? Ég leyfi mér að stórefast um það. Erum við foreldrar tilbúin að taka endalaust launalaust leyfi þegar ekki tekst að manna allar stöður inná leikskólum borgarinnar eða starfsmenn hreinlega bugast sökum álags? Já, og kostar það samfélagið okkar ekkert ef foreldrar þurfa að taka launalaust leyfi trekk í trekk? En þau segja að þetta sé sparnaður og hagræðing.
Ég skora á borgina okkar að hugsa málið lengra og horfa til framtíðar. Innan veggja leikskólanna eru nefnilega borgarar framtíðarinnar. Það felst einfaldlega enginn sparnaður í því að tryggja ekki velferð barnanna okkar og brjóta á þeim eins og verið er að gera núna með því að neita þeim um lögbundna grunnþjónustu. Það þarf að styrkja innviði leikskólanna og tryggja þannig að þar geti farið fram faglegt starf. Gæluverkefnin verða hreinlega að bíða betri tíma, því börnin geta ekki beðið.
Með þökk,
Lína Dögg Ástgeirsdóttir
– fjölskyldumeðferðarfræðingur og foreldri barns á leikskóla í Reykjavík