Eins og margir hef ég eytt fleiri klukkustundum en ég kæri mig um að telja á skólabekk. Ég veit að við lærum lífið í gegn, það er leikur að læra og allt það bla bla bla.
En eru ekki ákveðnir grunnhlutir sem við erum að klikka á að kenna börnunum okkar í skóla? Það eru svo margir hlutir sem ég stend ráðþrota frammi fyrir en ætti að vera svo auðvelt og gagnlegt að kenna í skólum. Þetta er spurning um einhverskonar grunnfærni, hluti sem gera okkur að ábyrgum samfélagsþegnum.
Við þurfum eitthvað að endurskoða þessa námskrá! Hér eru 8 hlutir sem allir ættu kunna en sumir eins og ég hafa ekki enn ekki lært þrátt fyrir að vera með háskólapróf:
1. skattskýrslan
Hún er árviss viðburður, það er jafn öruggt að sá tími ársins renni upp eins og aðfangadagur eða afmælisdagurinn minn og samt fríka ég alltaf út. Þetta er góður tími til að viðurkenna að fyrrverandi sá um skattaskýrsluna mína og því kvíði ég verulega fyrstu skattskýrsluskilunum sem einhleyp kona.
(Er þetta góður vettvangur til að auglýsa eftir manni, mögulega sem starfar sem endurskoðandi eða með góða talnagreind og bóngóður mjög?)
2. pólitíkin
Hvernig virka atkvæðin í þessu blessaða lýðræði okkar og hvað þýðir allt þetta pólitíska mambó jambó sem við munum þurfa að hlusta á næstu vikurnar í aðdraganda kosninga.
Ég skil t.d. ekki þetta utan af landi atkvæði versur úr Reykjavík atkvæði. Hvernig virkar atkvæðatalningin, hvað verður um auða og ógilda seðla og hvað gerist ef þú nærð ekki 5% atkvæða o.s.frv. Fengu allir nema ég þetta með móðurmjólkinni, er ég ein týnd í heimi þessa flækjustigs?
3. peningar, peningar, peningar
Ég fékk nánast enga fjármálafræðslu. Það eina sem ég man eftir er að Búnaðarbankinn heitinn bauð upp á fermingarfræðslu og ég man ekki eftir að hafa lært neitt þar nema hvernig ætti að fylla út ávísun.
Ávísunarheftin dóu út skömmu síðar. (Það er ótengt mér, ég sver) En hvað þýða allar þessar tölur, vextir og vaxtavextir? Hvernig er best að leggja fyrir og hvað annað er nauðsynlegt að vita til að enda ekki með kreditkortið og yfirdráttinn í botni?
4. höfuðáttirnar
Ef það er kennt í skólanum hvernig eigi að átta sig á því hvað er norður, suður, vestur og austur, þá fór það framhjá mér. Vitið þið hvað það er vandræðalegt þegar upp kemst um þessa fávisku mína. Hvar er norður ef ég stend og horfi í þessa átt?
Plís segið mér að það leynist fleiri þarna úti sem séu strand með mér í þessu?!?
5. Samskipti
Svona í alvöru. Afhverju er okkur ekki kennd einhver samskiptatækni? Er til mikilvægari hæfni í samfélagi en samskiptatækni? Og erum við ekki mörg algjörir vanvitar þegar það kemur að því að eiga í samskiptum hvert við annað? Dæmin eru óteljandi svo það hlýtur bara að vera að það þurfi að fara í þetta í skólum.
Hugsið ykkur heim þar sem við gætum öll átt í faglegum og fallegum samskiptum hvert við annað. Hversu miklu betra og einfaldara væri lífið þá?
6. hvernig sækir maður um starf?
Afhverju er þetta ekki kúrs í menntaskólum? Væri ekki unaðslegt að útskrifast og vera með ferilskránna klára, reiðubúin í atvinnuviðtalið og búin að æfa launaumræðurnar? Í alvöru! Þetta er basic stöff!
7. sjálfsefling og andleg heilsa
Við þurfum að tækla þetta sjálf okkar alla daga. Engin undankomuleið. Oftar en ekki erum við okkar versti óvinur, sérfræðingar í sjálfsniðurrifi.
Mörg okkar þurfum að takast á við kvíða eða jafnvel depurð, skammdegisþunglyndi er algengt á Íslandi og samt ræðum við aldrei andlega heilsu inni í skólum? En þeim er ógurlega umhugað um líkamlega heilsu okkar og við látin hlaupa í einhverjum satanískum píp hlaupprófum eins og enginn sé morgundagurinn. Ætti þá ekki að taka sjálfið og andlegu heilsuna aðeins líka, hún er nú ekki síður mikilvæg!
8. Grunnhæfni til að lifa af
Ég er ekki að tala um hvernig eigi að lifa af í óbyggðum, mér finnst það vera fyrir lengra komna. Nei, ég er að tala um að setja saman Ikea húsgagn (kommon, ekkert okkar kemst í gegnum lífið án þess að þurfa að setja eitt slíkt saman), skipta um ljósaperu, strauja skyrtu og búa um rúmið.
Ég er á fertugsaldri og slæst enn við sængina þegar ég er að troða sængurverinu utan um sængina og krumpuð föt eru staðalbúnaður. Ég lærði að þvo þvott með því að læra af rándýrum mistökum sem enn sér ekki fyrir endann á og auglýsi á Tinder eftir einhverjum sem kann að setja saman setja saman Ikea húsgögn.