Tilefni þessara skrifa er grein Katrínar Helgu Andrésdóttur og gagnrýni sem hún hlaut í fésbókarstatus Loga Pedro Stefánssonar. Greinin fjallar um stöðu kvenna í hiphoptónlistarsenunni á Íslandi. Logi Pedro sagði greinina vera fordómafulla fyrir rapptónlist og menningarheiminum sem hún sprettur úr. Ég er í Reykjavíkurdætrum. Hins vegar tala ég ekki fyrir hönd hljómsveitarinnar eða upplifun hinna dætranna. Ég ætla aðeins að tala út frá minni upplifun í þessum pistli.
Það sem ég hef lært er að hip hop hefur meiri dýpt en mig hefði grunað, bæði menningin og hæfni í textagerð og tónsmíðum. Erlent hip hop hefur lengi verið gagnrýnt fyrir að bera ekki nægilega virðingu fyrir konum. Ég velti fyrir mér hvort það sé einmitt það sem má einnig gagnrýna íslenskt hip hop fyrir.
Reykjavíkurdætur hafa fundið fyrir þessu mótlæti með ýmsum hætti. Þá má benda á kommentakerfi, „beefið“ milli Reykjavíkurdætra og Emmsjé Gauta þar sem Gauti sagði í tísti að Reykjavíkurdætur væru feit pæling sem gengi ekki upp. Þegar þær hafa farið í samstarf við vinsæla karlkyns taktsmiði hafa þeir fundið fyrir mótlæti innan senunnar. Það kristallast í þessu það þarf kjark og styrk til að styðja Reykjavíkurdætur. Skilaboðin voru skýr: þið eruð ekki velkomnar.
Margir í íslensku hiphopsenunni eru kunningjar mínir og mér líkar vel við þá. Ég trúi því að þeir vilji vel og mér finnst feminísk hugsun þeirra hafa aukist. Með skrifum mínum vil ég hvetja þá til að halda áfram að bæta sig því ég tel þá hafa gert það hingað til.
Vangaveltur Loga um virðingarstatus hip hopps hérlendis og erlendis eiga rétt á sér. Ég vil ekki leggja honum orð í munn og get því ekki fullyrt hver meining hans var. Ég get aðeins fjallað um áhrifin sem ég tel skrifin mögulega hafa haft. Mín upplifun er að hann hafi getað lokað á feminíska umræðu með nokkuð klókum hætti. Ég efa að það hafi verið ætlun hans en ég hef áhyggjur af því að áhrif skrifanna séu þau að þaggað sé í minnihlutahópi með öðrum minnihlutahópi.
Mér þykir þó erfitt að fara út í slíka umræðu þar sem ég tilheyri aðeins öðrum hópnum og get því í raun aldrei fyllilega skilið nema annan hópinn. Hins vegar ber mér skylda til að skoða mín eigin forréttindi og mun því gera mitt besta í þessum vangaveltum. Erlent hip hop spratt upp úr menningu svartra karlmanna og baráttu þeirra fyrir réttindum sínum. En hvar stendur íslenskt hip hop sem samanstendur aðalega af hvítum karlmönnum? Nú þarf ég að vanda mig að gerast ekki sek um það sama, það er að þagga í minnihlutahópi sem ég tilheyri ekki og á margt ólært um.
Óskandi væri að þessir tveir minnihlutahópar konur og kynþáttur gætu unnið saman í stað þess að vinna gegn hvor öðrum. Eitt er víst að ég myndi bera meiri virðingu fyrir hiphopsenunni ef það væri meira rými fyrir kvenmenn í henni.