Auglýsing

Þetta er ekkert költ, þetta er bara foreldrarekinn leikskóli

Barnaheimilið Ós er foreldrarekinn leikskóli í Reykjavík. Hann er í gulu bárujárnshúsi við hliðina á Austurbæjarskóla – einhver sagði mér að það væri „bárujárnshúsið við Bergþórugötuna“ eins og í textanum eftir Davíð Oddson en fólk segir svo margt. Fólk hváir stundum þegar ég útskýri eitthvað í sambandi við leikskóla dóttur minnar. En ég veit það ekki, ég hef engan samanburð.

Svo við fjölskyldan erum Ósarar. Það er nefnilega ekki bara barnið sem byrjar í skemmtilegu og lærdómsríku prógrammi. Ég er til dæmis að fara í sumarbústaðaferð með börnunum, foreldrunum og starfsfólkinu á Ósi um helgina. Þetta er fjári stór hópur því á Ósi eru rúmlega þrjátíu börn og eitthvað af börnum og foreldrum sem eru útskrifuð og vaxin upp úr leikskólalífinu ætla líka að mæta í ferðina. En þetta er ein af hefðunum, ein af þeim skemmtilegustu.

Ég þekki umhverfið sem dóttir mín dvelst í á daginn afar vel. Ég þekki börnin, fóstrurnar (já, þau eru fóstrur – þetta er nefnilega barnaheimili) og hina foreldrana. Ég þekki ekki sögu skólans sérstaklega vel en ég veit að hún spannar rúm fjörtíu ár – þetta barnaheimili var stofnað af hugsjónaríkum og dugmiklum foreldrum og hefur verið rekið og mótað af slíku fólki síðan 1973.

Svo hvað gerir foreldri á Ósi? Foreldrið, eins og flest önnur, skilar þangað barninu sínu og sækir það. Það er svona hluti af því. Þess utan sækir foreldrið reglulega stórfundi þar sem starfið er rætt og teknar ákvarðanir um áherslur, viðburði og fleira mikilvægt. Foreldrið hendir í vél þegar barnið þess „vinnur“ í þvottalottóinu og fær heim með sér poka af taui. Foreldrar hlaupa líka í skarðið ef þau geta þegar starfsfólk vantar part úr degi – til dæmis í eldhúsinu eða útivistinni.  Ég veit að þetta er ekki fyrir alla, annars væru skólar eins og Ós út um allt.

Ég hef snýtt helmingnum af börnunum á Ósi og drukkið kaffi og bjór með foreldrum þeirra. Ég hef næstum unnið limbó-keppnina á árshátíð foreldra og starfsfólks, tvisvar. Ég hef málað útihúsgögn, þrifið, sótt fisk, skipulagt útimarkað og hýst krakkadiskó. Þó ég hafi stundum stunið aðeins yfir þessum aukaverkefnum sem fylgja því að taka þátt í því að reka leiksskóla með fullt af öðru fólki, þá færir framkvæmd þeirra mér gleði.

Gleði og stolt. Kannski er þetta svolítið eins og að vera virkur í starfi íþróttafélags eða í félagslífi í framhaldsskóla? Eitthvað sem mótar mann og maður skilgreinir sig út frá. Það er kannski framandlegt að svo samfélagsleg tilfinning skapist út frá leikskólastarfi en ég get fullyrt að það er síst verra. Öll höfum við vonir, áhyggjur og metnað sem tengist börnunum okkar, og við foreldrarnir eigum skýrt sameiginlegt markmið – að skapa gott og uppbyggilegt umhverfi fyrir börnin okkar. Og við erum partur af því. Maður getur orðið MH-ingur, Veslingur eða Valsari, en ég er bara í virkum aðdáenda- og stuðningshópi foreldra barna á leikskólaaldri.

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.
Svo er dásamlegt að deila.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing