Auglýsing

Þrælahald jólasveinsins og hjálparsveinar með svipur

Nóvember er byrjaður. Núna er jólaölið búið að vera til sölu í Bónus í mánuð og margir íslendingar búnir að blóta því, og Rúmfatalagernum, í sand og ösku. „Jólin eiga ekkert að byrja svona snemma,“ hugsa þau og skrifa á Facebook svo að það fari ekki framhjá neinum hvað þeim finnst þetta asnalegt. Bara rétt eins og árið áður og árið þar á undan og árið á undan því. Ótrúlegt að verslanir nýti sér meira en bara desember til þess að græða á jólunum. Ég skil þetta bara ekki. Ég skil heldur ekki af hverju ekkert breytist þó svo að maður geri status um það. En það er efni í aðra grein.

Að þessu sinni eru þó jólin mér mjög ofarlega í huga. Þá sérstaklega í ljósi nýliðinna atburða. Eins og ég hef áður sagt  þá reynir maður eftir bestu getu að aðlagast nýrri menningu í landinu sem að maður býr í. Ég tek þennan boðskap eins langt og ég get og er því í frönskuskóla hérna í París. 

Að læra nýtt tungumál er svolítið eins og að fara aftur um 14 ár. Maður er að mörgu leyti mállaus, aðallega vegna þess að maður kann bara að nota sagnir eins og: „Ég er, ég á, ég vil og ég heiti“. Ég viðurkenni að það kemur manni takmarkað áfram í samræðum.
 Í frönskutíma færðu blöð með myndum og á blaðinu eru myndir af sól, rigningu og skýjum. Þú þarft að skrifa, og segja, hluti á borð við: „Sólin skín í dag og þess vegna er ég glöð“ (allt í nútíð því að þú kannt ekki þátíð).

Svo kemur augnablikið þar sem þú heldur að þú sért búin að sigra heiminn og talir loksins frönsku, þá kemur eitthvað sem lætur þig efast um þennan nýja sigur. Ég var viss um að ég væri ekki að skilja kennarann rétt þegar þessi litla umræða um franska jólasveininn byrjaði.

Ég bjóst ekki við að Skyrgámur og bræður hans væru í Frakklandi og ég bjóst alls ekki við því að Frakkland væri með sinn eigin Christian Grey sem hjálparsvein Jólasveinsins. Hann er reyndar ekki kallaður það, heldur „Père Fouettard“ eða „The Whipping Father“. Hann eltir franska jólasveininn út um allt og lemur þau með svipu ef þau eru óþæg.

Ég veit ekki hver ákvað þessa markaðsetningu en hún hefur greinilega ekki truflað jafn marga og markaðssetning E.L.James á Fifty Shades of Grey. Ég skil svo sem ruglinginn, það getur verið erfitt að forgangsraða reiðinni. Fullorðnir einstaklingar lesa skáldsögu sér til skemmtunar um kynlíf og svipur — eða sögurnar sem þú segir börnunum þínum um Jólasveininn og hjálparsvein hans.

Sumir myndu segja að Grýla sé alveg jafn hræðileg þar sem hún stelur börnum og borðar þau. Mannát er samt ekki jafn útbreitt samfélagslegt vandamál og ofbeldi á börnum. Ég veit samt ekki hvað dyggustu aðdáendur Walking Dead taka upp á en það er þá vandamál fyrir annan dag.

Við nánari rannsókn komst ég að því að hollenski jólasveininn er ekkert mikið skárri. Hann er líka með krimma sem förunaut en börn sem að eru óþekk í Hollandi eru sett í poka hjá hjálparsveininum Zwarte Pieten eða „Black Peter“ og hann fer með þau til Spánar í eitt ár og kennir þeim að haga sér. Það væri nú meira viðeigandi í París, svona eftir að hafa séð Taken. Hjálparsveinninn er svartur þræll sem jólasveinninn á, svona ef þú hélst að þetta gæti ekki orðið verra.

En hollenski jólasveinninn og Zwarte Pieten búa nefnilega á Spáni. Hvers vegna veit ég ekki. Ætli þeir þurfi ekki að hvíla lúin bein í hitanum fyrir næstu jól. Allur þessi barnsburður á milli landa getur ekki verið auðveldur. Holland má þó eiga það að þeir sáu að svarti þrællinn Pétur var heldur racist og því er hann núna svartur vegna þess að hann er allur í sóti, en ekki vegna kynþáttar. Framför.

Sem fullorðin kona geri ég mér grein fyrir því að þetta eru innantómar hótanir og þjóðsögur sem eru hluti af menningunni. Það er samt svolítið einkennilegt að árið 2015 séu þetta ennþ á einu leiðirnar til þess að halda börnum þægum um jólin: Að hóta þeim með mannáti, barsmíðum, svipum og/eða mannráni. En það virkar sennilega ágætlega. Fimm ára ég var þó ekki alveg svo ævintýragjörn að vilja eyða ári á Spáni með svörtum þræl jólasveinsins. 22 ára ég hinsvegar …

Þessar pælingar fá mann þó aðeins til þess að hugsa. Hver er eiginlega besta og „rétta“ útgáfan af jólunum? Ætli Bandaríkin hafi ekki vinninginn? Krúttlegur, feitur maður sem að drekkur kók og færir börnum gjafir. Annars hljómar kartafla í skóinn líka alveg frekar vel núna, svona miðað við hina möguleikana.

Ég mun þó, eins og áður sagði, gera mitt allra besta til þess að aðlagast menningunni. Kannski verð ég næsta Anastacia í nýrri, brenglaðri jólaútgáfu af Fifty Shades of Grey. Nei annars, þetta er bara fyrir börnin. Ég hringi samt í höfundinn og tékka hvort að hún sé til í þetta.

Ég læt ykkur vita af gangi mála.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing