Reykjavík er skítug. Hún er skítug vegna þess að hún er ekki orðin græn ennþá, vorið er ekki alveg komið. Það er heldur ekki búið að sópa nema eitthvað smá í Smáíbúðahverfinu. Og hún er skítug vegna þess að hér búa drullumargir sóðar. Já, ég er að tala um ykkur sem notið ekki ruslatunnur og leyfið hundunum ykkar að pissa á stéttina mína og kúka í gróðurinn.
Lögun hundakúks er misjöfn. Hafið þið pælt í því?
Þessir afskiptu lortar sem ömurlegir hundalabbendur hafa skilið eftir í nágrenni Norðurmýrarinnar fara ekki bara í fagurfræðilegar taugar mínar heldur rennur mér blóð til skyldunnar og ég verð bara að spyrja: „Hvað með börnin?“ Þau stíga í þetta. Vilja pota í þetta. Þetta fýkur í augun á þeim – þau eru lágvaxin, það er hvasst.
[hlífi lesendum við umræðunni um kattakúkinn, það er annar pistill]
Við erum flest seinþreytt til vandræða. Við viljum bara að allt gangi upp og öllum líði vel, jafnvel þó einhver séu aðeins að sveigja reglurnar. Það er ekki alls staðar þannig. Þegar ég hjólaði ljóslaus í Berlín var ég stoppuð þrisvar sinnum sama kvöldið af afskiptasömum borgurum sem bentu mér mis-góðfúslega á hættulega hegðun mína. Fyrst var ég hissa. Svo varð ég pirruð og svo alveg tryllt af skömm þegar ég komst loksins burt frá þessari afskiptasemi. En í baksýnisspeglinum þá höfðu þessir böggarar alveg rétt fyrir sér. Maður á ekki að hjóla ljóslaus, það er tillitslaust og hættulegt.
Og maður á að þrífa eftir gæludýrin sín en ekki leyfa þeim að skíta út allt.
Ég elska hunda, hef alls ekkert á móti köttum heldur. En þetta eru örfáir kúkalabbarar sem koma óorði á alla hina – og það er ekkert sanngjarnt.
Nú er ég farin að íhuga alvarlega að taka Berlínarbúann á þetta og hreinlega gelta á alla þá hundaeigendur sem ég hef grunaða um að gleyma pokanum. Eða það sem betra er. Taka af þeim mynd og pósta á Facebook. Mynduð þið gera það?
Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.
Svo er dásamlegt að deila.