Auglýsing

Tölvuleikir þurfa ekki að vera slæmir

Árið 1962 var fyrsti tölvuleikur heims talinn vera forritaður. Sá leikur var kallaður Spacewar og var frekar einfaldur miðað við það sem við þekkjum í dag. Samt sem áður var þessi leikur spilaður á tölvu sem var á stærð við bíl þar sem að þessi nýja tækni var ekki langt komin. Þarna fór boltinn að rúlla og með árunum sem liðu fóru fleiri slíkir leikir að koma við sögu.

Á níunda áratugnum voru spilakassaleikir orðnir vinsælir og ansi margir en það var árið 1992 sem að leikurinn Wolfstein 3D gjörbreytti leiknum. Þarna var kominn byssuleikur þar sem spilarinn stjórnaði tölvugerðri manneskju í fyrstu persónu og flakkaði um þrívíðann tölvugerðan heim og skaut niður óvini. Tveimur árum seinna kom fyrsta Play-Station tölvan út og er nokkuð víst að flestir á Íslandi viti hvaða tölva það er.

Þetta er ekki löng saga viðamikilla þróunar tölvuleikja og var henni einungis lýst hér í grófum dráttum en þegar horft er á samfélagið okkar í dag og þá sérstaklega á yngstu kynslóðirnar þá er augljóst að þessi þróun tölvuleikja verður hraðari með hverju ári sem líður.

Alveg frá fyrstu árum vinsælla tölvuleikja og komu leikjatölvunnar hefur umræðan um neikvæða þætti tölvuleikja verið hátt á lofti. Það er skiljanlegt að foreldrar, kennarar, þjálfarar, pólitíkusar og fleiri sem koma að þroska og mótun barna í samfélaginu mæli gegn þessu áhugamáli þar sem að sitja við tölvuskjá virðist ekki vera heilbrigt gagnvart líkamlegri og andlegri heilsu barna þegar það kemur í veg fyrir hreyfingu, útiveru, félagsþroska þeirra og jafnvel tíma með fjölskyldunni.

Þessar skoðanir hafa við rök að styðjast enda eru flestir tölvuleikir hannaðir til þess að vera ávanabindandi og tímafrekir en eins og fyrr kom fram hér þá er þróun tölvuleikja mikil og hröð.

Það þarf að endurskoða þessar skoðanir á tölvuleikjum í dag. Með hjálp alnetsins (e. internet) hafa tölvuleikjaframleiðendur tengt saman áhugafólk leikja í öllum heimshornum. Í dag eru vinsælustu tölvuleikirnir þeir sem spilaðir eru með öðrum hvort sem þeir eru vinir, saman í bekk eða jafnvel þekkjast ekki neitt og búa í sitthvorri heimsálfunni. Þetta hefur gefið tölvuleikjum auka eiginleika sem gengur í berhöggi við þær neikvæðu kenningar sem fylgja tölvuleikjaspilun.

Þegar keppt er í þessum leikjum í dag er verið að keppa við aðra spilara og oftar en ekki með öðrum spilurum í liði. Notast er oft við míkrafóna sem tengda eru heyrnatólunum til þess að eiga samskipti við liðsfélagana og mynda plön og bragðvísi til þess að vinna bug á keppinautum sínum.

Hvort sem að þessi samskipti eiga sér stað inni í sama herbergi og liðsfélagarnir eða í öðru horni heimsins þá er samskiptafærni og félagsfærni mikilvægur hlutur sem notast er við.

Alveg eins og með skák tel ég þessháttar tölvuleiki vera hugaríþrótt sem þjálfar rökhugsun og eykur þolinmæði og þrautseigju. Þó svo að skák eigi sér stað augnlits til augnlits þá er samt sem áður ekki mikið meira augnsamband eða samskipti sem á sér stað í þeim leikjum ef horft er á þar sem spilararnir þar sleppa varla augum af borðinu og taka svo stutt handaband þegar leik er lokið.

Ný menning er að myndast í kring um þessa tölvuleiki í heiminum í dag og breiðist hún hratt út þökk sé veraldarvefnum. Þegar yngri kynslóðirnar í dag eru spurðar út í fræga einstaklinga þá tel ég að jafn miklar og jafnvel meiri líkur sé á að þau þekki fræga tölvuleikjaspilara heldur en fræga leikara. Þessir frægu spilarar eru ekki lengur áhugafólk heldur eru þetta atvinnumenn í sínu áhugamáli. Milljónir manna fylgja þeim á samfélagssíðum og horfa á vídjóin þeirra og tugir þúsunda fylgjast með þeim spila tölvuleikina í beinni útsendingu á veraldarvefnum.

Það eru félagslið og landslið í ákveðnum tölvuleikjum sem keppa í sínum tölvuleik víða í heiminum, styrkt af fyrirtækjum, fá mánaðarleg laun og bónusa fyrir velgengni í keppnum, frægð og frama og eru fyrirmyndir krakka og unglinga.

Það er búið að sanna það að tölvuleikjaspilarar hafa framtíð fyrir sér í þessum bransa ef allt gengur upp og smá heppni fylgir þeim. Valur Marvin Pálsson er íslenskur atvinnumaður í tölvuleik og spilar hann fyrir Kanadískt fyrirtæki og er búsettur í Los Angeles. Hann er búinn að sanna það fyrir Íslendingum að þetta er ekki einungis bandarískur draumur heldur greiður möguleiki hvers og eins.

Foreldrar barna sem æfa fótbolta eða handbolta eru dugleg í því að mæta á leiki, skutla þeim á æfingar, kynnast þjálfaranum og foreldrum liðsfélagana og með því sýna þau áhuga á íþróttinni og styðja þau þannig við barnið sitt sem gefur þeim meiri möguleika á velgengni. Afhverju prófar ekkert foreldri að gera það sama fyrir barn sem hefur brennandi áhuga á tölvuleikjum? Bara ef að foreldrar þessa barns sýndi tölvuleiknum áhuga, prófaði að spila hann, fræddi sig um fyrirmyndirnar, kynntist liðsfélögum barnsins og foreldrum þeirra og einfaldlega studdi það við áhugamálið sitt. Hægt er að nýta þennan áhuga í gæða fjölskyldustund ef þess er þörf og umræðu við matarborðið. Þarna er tækifæri fyrir foreldra að fræða barnið sitt um mikilvægi góðra heilsu ef langt á að ná  í tölvuleikjum þar sem að þessir herkænskuleikir byggjast að mörgu leyti upp á að geta hugsað skjótt, verið með fljót viðbrögð og góða rökhugsun. Flestir vita að þessir eiginleikar haldast hönd í hönd við góða líkamlega og andlega heilsu. Tölvuleikir þurfa ekki að hafa neikvæð áhrif á líf barnsins.

Pistillinn birtist upprunalega á vef Frítímans

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing