Auglýsing

„Veistu, mig langar bara ekki að vera með núna.“

Við þekkjum öll feimin börn, já og jafnvel feimið fullorðið fólk sem kýs að halda sig til hlés, sérstaklega meðal ókunnugra. Tilfinning þess að aðrir beini athygli sinni að manni getur verið hreint óbærileg fyrir marga. Feimni er algeng og oftast fullkomlega eðileg. Þegar einstaklingur upplifir annarleika eða spennu í félagslegum samskiptum er það sjálfsagður varnaháttur okkar að draga okkur í hlé. Foreldrar feiminna barna geta haft tilhneigingu til þess að afsaka börnin sín og reyna að ýta þeim af stað í leik eða samskipti en það eru til fleiri leiðir til þess að hjálpa feimnum börnum af stað á félagslega svellinu. Hér eru nokkur ráð úr ýmsum áttum.

#1. Vinnum með en ekki á móti

Það er betra að vinna með feimnina heldur en á móti henni. Feimni er partur af persónugerð sumra og þá eldist hún ekki af viðkomandi. Þá er heppilegra keppikefli til framtíðar að hjálpa barninu að finna til öryggis í ólíkum aðstæðum og virða þau mörk sem barnið setur sér sjálft.

#2. Hættum að stimpla

Það sem gerist þegar börnin heyra einhverja umsögn um sig trekk í trekk er að þau fara að trúa henni, líta á skýringarnar sem afsökun eða óaðvitandi gangast upp í því hlutverki sem við stimplum þau með. Það er óþarfi að bæta við það neikvæða sem þau mögulega hugsa sjálf. Þú sem foreldri þarft ekki að afsaka barnið þitt. Aðrir sjá ef barnið þitt er feimið, þú þarft ekki að klifa á því.

#3. Leyfðu því að útskýra hlutina sjálft

Það þarf ekki að vera flókið, fer eftir aldri og þroska hvers og eins. Æfðu barnið í að geta verið kurteist – geta boðið góðan daginn, horft í augu annarra og sagt t.d. „mig bara langar ekki að vera með / mig langar ekki að tala mikið núna“.
Gefðu barninu færi á að fylgjast bara með. Sumir finna til mikil óöryggis í nýjum aðstæðum. Þau þurfa að sjá út hvað hvað allt gengur og það tekur tíma.

#4. Fyrirhyggja er góð

Undirbúðu barnið með því að ræða það sem framundan er. Stundum er gott að fá að mæta aðeins fyrr á staðinn til þess að kynna sér aðstæður, t.d. þegar barnið byrjar í nýjum skóla, á námskeiði eða á von á því að hitta margt nýtt fólk.
Gefðu barninu hlutverk. Eitthvað einfalt sem það getur notið sín í. Hlutverkið er hægt að æfa fyrirfam – þau fá að æfa orðin sín og viðbrögð í öruggum aðstæðum. Stundum er auðveldara að framkvæma hluti ef maður er ekki bara maður sjálfur.

#5. Æfðu þína eigin þolinmæði

Flexaðu æðruleysisvöðvann, það er alltaf gott.

#6. Spurðu þau

Spurðu barnið hvernig það vilji hafa hlutina. Börnin okkar eru oft með lausnirnar sjálf. Þau eru ógeðslega klár og búin að pæla í miklu fleiru en við höldum.

#7. Taktu lítil skref og gerðu mistök

Ef barnið miklar hluti fyrir sér, hjálpaðu því að brjóta verkefnið niður í minni einingar og velja hvaða skref er best að stíga fyrst. Feimni getur valdið kvíða. Kvíði er oft hræðsla við mistök. Prófið að æfa ykkur í að gera mistök. Það er mjög skemmtilegt.

#8. Vandaðu þig við samanburðinn

Ekki bera börnin þín saman við önnur börn, s.s. systkini eða vini. Það hjálpar ekki neitt. Þau eru sjálf að fylgjast með jafningum sínum og vinum. Leitaðu frekar að hlutlausum fyrirmyndum, s.s. sögupersónum í bókum eða bíómyndum ef þig langar endilega að ræða um eitthvað sem þarfnast samanburðar við barnið þitt.

Og feimni er fín. Auðvitað vilja foreldrar að börnunum þeirra líði vel í öllum aðstæðum, þau séu sjálfsörugg og kát og til í allt – orðheppnir snillingar sem geti allt í fyrstu tilraun. Fiskar í félagslegu vatni. En, það er ekki þannig. Flest erum við feimin við eitthvað og kannski snýst æskan bara um að fækka því sem gerir okkur feimin?

Halló, við Nútíma-Foreldrar erum líka á Facebook.
Lækaðu þar ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing