Ég er í verkfalli og mér finnst eins og rétt rödd mín og margra kollega minna mætti heyrast, þar sem hún gerir það ekki í fjölmiðlum.
Til að koma í veg fyrir allan misskilning þá langar mig til að benda ykkur á að þó ég sé sjómaður þá er ég ekki milljónamæringur — ég er eiginlega bara frekar langt frá því. Satt best að segja hef ég aldrei unnið með sjómanni sem er það. Yfirleitt eru þetta bara eðlilegir menn sem hafa fært allt of miklar fórnir í lífinu, þekkja börnin sín mun minna heldur en þeir kæra sig um og vinna öllu jafna við aðstæður sem myndu teljast af öllum stofnunum í landi óboðlegar eða hættulegar. Þá er ég ekki að taka inn í slæmu dagana sem virðast undantekningarlaust koma nokkrum sinnum í mánuði.
En ég biðst afsökunar á þessum útúrsnúningi þar sem þetta varðar kjarabaráttu okkar ekki neitt. Við erum bara að biðja um pínulítinn vott af virðingu frá vinnuveitendum okkar. Við viljum labba teinréttir í baki – stoltir og segja við ungt fólk að það sé gott að vera sjómaður – ekki bognir í baki með hluta af þunga útgerðanna á herðum okkar.
- Af hverju eigum við að borga olíuna á skipin? Hvað ætli flutningabílstjórinn hjá Eimskip myndi segja ef að hann þyrfti að borga olíuna á bílinn? Og heyrðu, ef hann er nýr þá drögum við 10 prósent meira af honum. Hvaða rugl er þetta eiginlega?
- Til hvers að gefa okkur 1.200 kall eða hvað það er á mánuði í hlífðarfatakostnað: „Hérna færðu upp í vettlingana, vinur“. Meðaleyðslan mín á mánuði í hlífðarföt er 8.000 kall. Fyrst að útgerðirnar eru svona bágstaddar þá tek ég þetta á mig bara, er það ekki?
- Sjómannaafslátturinn var í gamla daga hugsaður sem nokkurskonar dagpeningar fyrir okkur sjómenn. Dagpeningar er hins vegar mun betra orð yfir þetta og eftir því sem ég best veit þá fá allir svoleiðis sem starfa fjarri heimilis í einn dag eða lengur, nema við. Af hverju?
Áður en þessi Heiðrún Lind fer að tala meira (og ég gubba hérna yfir allt) þá langar mig að þakka ykkur fyrir lesturinn. Ekki trúa orði af því sem hún segir. Og Sjómenn, stöndum saman og notum samskiptamiðla til þess að deila skoðunum okkar, þar sem fjölmiðlar eru ófærir.