Auglýsing

Við getum ekki sigrað illt með illu

Enginn er óhultur. Það er tilfinningin sem er yfirgnæfandi er ég skrifa þessi orð. Ég sit á litlu huggulegu kaffihúsi í austur London. Gömul húsgögn eru á víð og dreif, rifinn Chesterfield sófi  við gluggann með innvolsið gapandi útum gatið fyrir miðju. Hundur liggur fyrir enda sófans, gæti verið jafngamall og sófinn sjálfur, úfinn og veðraður og erfitt er sjá hvar hausinn er og hvar bakhlutinn. Honum veitir ekki af snyrtingu en hann virðist ekki missa svefn yfir því. Parketið lætur einnig vel á sjá, það brakar hressilega við hvert skref. Kerti í ósamstæðum kertastjökum blakta á hverju borði. Rödd Harry Bellafonte ómar um rýmið.

Það er miður nóvember og ekki laust við að jólastemning láti kræla á sér þó það sé nokkuð ótímabært enn um sinn. Kannski er það því veðrið er hráslaralegt í dag, rigning, rok og kuldi. Eða kannski er það vegna heita súkkulaðsins sem ég dreypi og ilsins frá kertaljósinu. Ég heyri par ræða saman á frönsku á næsta borði. Og í þann mund kólna ég að innan og kem tilbaka úr rómantíkinni og aðventuhugleiðingum í kaldann raunveruleikann.

Föstudagurinn 13. nóvember 2015. Parísarborg. Enginn er óhultur. Hvernig slík mannvonska er möguleg get ég ekki fyrir skilið fyrir mitt litla líf. Ég horfi í kringum mig. Heyri skvaldrið, sé brosin, heyri kossaflens og hlátrasköll. Það glamrar í glösum og fleira fólk streymir inn, hrisstir samanbrotnar regnhlífar og brosir, fegin að vera óhult fyrir þeim óvenju stóru regndropum sem skella á öllu því sem fyrir þeim er. En eru þau svo óhult? Er ekki rigningin bara smámunir miðað við það sem gæti gerst? Mun einhver af þessum nýjum gestum rífa upp Kalashnikov riffil, dásama hvern þann guð sem hann trúir á og hefja skothríð? Hvað veit ég?

Staðreyndin er sú að þetta gæti vel gerst. Eins skrýtin tilhugsun og ótrúleg hún er. Og slík tilhugsun myndi venjulega ekki hvarla að mér nema vegna atburða föstudagsins. Ég held að fólkið sem sat á kaffihúsunum í París og fólkið sem skemmti sér á tónleikunum í Bataclan hafi ekki getað órað fyrir þeirri atburðarás sem myndi móta líf þeirra til æviloka, þar eð ef þeir kæmust lífs af á annað borð.

Hvernig er komið fyrir heiminum okkar? Hvað verður nú? Bara sú staðreynd að árásir gærdagsins gerðust svo nærri árásunum á Charlie Hebdo segir meira en mörg orð. Þrátt fyrir að löggæsla hafi verið aukin þá eru þessir menn ennþá færir um viðurstyggilegar aðgerðir sem þessar. Engu líkara en að hryðjuverkamennirnir séu að gera grín eða ögra lögreglunni. „Þið getið gert hvað sem er, við munum samt meiða ykkur!“

Hundruð saklausra borgara liggja í valnum. Fólk sem einungis var að gera sér glaðan dag. Fólk eins og ég og þú. Fyrir hvaða málstað? Hvers vegna? Hvað er að gerast? Þessar spurningar og margar aðrar rigna yfir mig og ég fæ engin svör. Og eg er ekki einn um það. Það eru eflaust afar margir sem spyrja sig sömu spurninga og annarra en fátt er um svör. Staðreyndin er sú að við erum í stríði, stríð sem ekki mörg okkar skilja. Það er ekki skrýtið. Slíka mannvonsku, slíða heift og reiði er erfitt að skilja. Slíka atburðarás er erfitt að skilja. Svo má á annað borð spyrja sig, er hægt að skilja þetta? Er hægt að spara sér orku, tíma og tár (nóg er af þeim á svona tímum) og viðurkenna að það sem gerðist í gær er óskiljanlegt?

Hvað sem því líður, þá er það afar uggandi að standa í stríði við hreina illsku og vita að hún getur skotið upp kollinum hvar sem og er og hvenær sem er. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að við sýnum samstöðu, höldum ró okkar og hugum að hvort öðru. Allt í kringum mig sé ég samstöðu og það skín í gegn hversu gott fólk er. Ást og kærleikur er í loftinu hér í London, í París og víðar, um allan veraldarvefinn til að mynda, allavega þann hluta af honum sem ég skoða. Konan mín er frönsk og það hefur rignt yfir okkur skilaboðum um hvort allir sem henni tengjast séu óhulltir. Sem betur fer er það svo.

En hugurinn er með þeim sem urðu fyrir barðinu á hryðjuverkunum í gær og aðstandendum þeirra. Það er afar sorglegt að það þurfi svona hræðilega atburði til að fá  kærleik sem þennan upp á yfirborðið en vonandi mun þessi kærleikur leika um yfirborðið um alla framtíð, vera áberandi í lífi okkar á hverjum degi og sigra þessa illsku sem er því miður til staðar í okkar heimi í dag. Við getum ekki sigrað illt með illu, aðeins með góðu og nú er lag að gera slíkt!

Ást og friður.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing