Þegar ég geng í gegnum dótadeildina gubba ég smá upp í mig. Meirihlutinn af leikföngum sem ég sé í ofgnóttinni þar senda börnum nær ömurleg skilaboð. En þetta er ævintýraland í augum barnanna okkar. Mig langar svo að hitta 11 ára mig, sem var algjör sökker fyrir nýjum leikföngum, og garga á hana: „Hættu þessu, veistu ekki hvað þetta er mikil sóun!!!“
„Þetta verður einskis virði þegar þú ert búin að taka þetta úr umbúðunum.“ Þetta er ég, bara ennþá að garga á litlu mig – algjörlega búin að missa kúlið. Dísess, hvað dót er mikið drasl. Eiginlega allt dót. Það er líklega þess vegna sem það er bara kallað dót en ekki „leikföng“ svona í daglegu tali.
Hér er mín söguskýring. Við erum bara fjórum til fimm kynslóðum frá því að börn áttu ekkert dót og léku sér bara með grjót, bein og gamla girðingastaura. Þegar ég var barn þá voru ömmur og afar (og öll sú heila kynslóð) svo þakklát fyrir að leikföng voru til og þau höfðu efni á að gefa þau að barnaherbergi smekkfylltust af plasti (sem þá var líka ódýrara að framleiða en áður) og við höfum haldið þessari vitleysu áfram æ síðan.
Hin almenna 80/20 regla er ennþá í gildi, börn leika sér bara með 20% af dótinu sínu, hin 80% er dótið sem er fyrir (fótunum á þér, augunum á þér og farandi í skapið á þér). Og dót er oft 80% umbúðir og 20% innihald þegar á hólminn er komið.
En við höfum hætt alls konar vitleysu í gegnum árin. Við erum hætt að liggja í ljósabekkjum og reykja í flugvélum. Við getum líka hætt að fylla barnaherbergi (og þar með ofurnæma en ómótaða huga barnanna okkar) af of-kynjuðu, mega-brönduðu, allt-of-dýru plastdóti. Við þurfum bara að standa saman.
Og það er eitthvað að krauma þarna úti. Sumir leikfangaframleiðendur og stórar verslunarkeðjur hafa til dæmis brugðist við gagnrýni og stigið skref frá kynjaaðgreiningu leikfanga. Nokkrar skemmtilegar fréttir þaðan:
Barbí er komin með mjaðmir! Það er farið að framleiða dúkkurnar í fleiri líkamsgerðum og nær veruleikanum.
Legó er að framleiða kall sem er heimavinnandi húsfaðir með barnavagn, mamman draktklædd með pelann á lofti og þriðji kallinn í hjólastól.
Meira að segja Ghostbusterstelpurnar eru orðnar Legókallar. Vúhú! Þær eru líka með gleraugu!
Og af hverju? Því markaðurinn (við) kallar eftir breytingum. Vitund neytendanna er að aukast, þ.e. foreldrar og aðrir eru farnir að spá meira í leikföngin og hvaða skilaboð þau senda. Börnin eru þó líklega jafnmiklir sökkerar fyrir nýju dóti og áður. Munið þið ekki tilfinningu þess að taka utan af nýju leikfangi, tæta sig í gegnum mannhelt plastið og þeyta skærprentuðum pappanum þvert yfir herbergið til þess eins að faðma fullkomlega óraunsæa Barbídúkku … og fá svo leið á henni korteri síðar?
Á alþjóðlegum skala velti leikfangamarkaðurinn 84 milljörðum dollara árið 2012. Það eru c. 10,5 billjónir ef við hugsum í íslenskum krónum. Áætluð krónutala í leikfangakostnað per. barn í Bretlandi árið 2012 var 62.000 kr. íslenskar, eitthvað lægra í Bandaríkjunum og Frakklandi. Fann ekki tölur fyrir Ísland, en veit af eigin reynslu að maður fær næsta bæ við ekkert fyrir fimmþúsundkall í íslenskri dótabúð. Eru annars íslenskar dótabúðir til lengur? Þetta er niðurdrepandi mál og þetta snýst alls ekkert bara um peninga.
Svo hvað er til ráða? Ég legg til að við hættum að gefa dót. Já, ég sagði það. Látum það ekki vera fyrsta val að gefa barni dót nema við höfum komið inn í herbergið þeirra og séð með eigin augum að það vantar meira dót. (Börn munu hata mig). Gefum samveru og upplifun í staðinn, ef þess er einhver kostur.
Dóttir mín (16 kg. af hreinum viljastyrk og dass af söfnunarþrá) fékk gjafabréf fyrir bíóferð með ömmu sinni og afa í jólagjöf. FRÁBÆR gjöf, takk fyrir. Hér eru nokkrar hugmyndir á slíkri bylgjulengd:
Bjóðum börnunum í :
- gistingu („sleep-over“ með vini/vinkonu?)
- klippingu (sumum finnst það skemmtilegt)
- ísbíltúr (eh, má ég koma með?)
- sund (klassískt)
- á íþróttaleik (út fyrir kassann, þarf ekki að vera landsleikur, má vera blakleikur í utandeild)
- í fjallgöngu (Helgafellið eða fell í næsta nágrenni, aðalatriði að það sé nesti)
- útilegu (má vera í garðinum heima)
- veiðiferð (ég er ekki að tala um Langána)
- út að borða (má vera Serrano/Bæjarins bestu/heimabakað pizzakvöld)
- í leikhús eða á tónleika (eftir smekk barnsins auðvitað)
Þið fattið hvert ég er að fara með þetta. Ef barnið fær að vera stjarnan, helst eitt eða bara með góðum vini eða vinkonu, þá er samvera á þeirra forsendum svo miklu meira virði en stundlegt plast sem enginn man hver gaf eða hvenær. Nema ef þið njótið þess ekki að vera í kringum börn – þá er þetta epískt vond hugmynd. Þá endilega gefið þeim bara dót. Nú eða peninga svo þau geti sjálf keypt sér dót.
PS hér er líka plan B:
Ef við þurfum/viljum/verðum endilega að gefa dót þá gefum a) eitthvað vandað sem eyðileggst ekki strax, b) eitthvað fjölnota eða c) eitthvað ægilega lítið sem veitir dásamlega ánægju í smástund en lýkur síðan hlutverki sínu – til dæmis: Límmiða! Blöðrur! Sápukúlur!
Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.
Svo er dásamlegt að deila.