Auglýsing

Viltu lesa með mér?

Ein sú yndislegasta spurning sem nokkurt foreldri getur fengið er „viltu lesa fyrir mig?“. Það sem er svo enn betra er að lesa með börnum, en ekki fyrir þau, þar sem börn bæta svo miklu við söguna og eru vel læs á myndir. Þannig verður lestur gæðastund, samtal og samvera. Það er aldrei of snemmt að byrja að lesa fyrir barn. Nýfædd börn róast við að hlusta á mildar raddir og þekkja raddir foreldra sinna síðan í móðurkviði. Jafnvel þótt nokkurra vikna/mánaða gamalt barn skilji ekki orðin kveikir lesturinn áhuga á hljóðum, örvar þroska og æfir hlustunarhæfni þeirra. Það er þó ekki nóg að tala bara við börn, því talmál okkar er eins og ein hlið á fimm blaðsíðna matseðli, ansi margt verður útundan. Með því að lesa bækur kynnum við börnin okkar fyrir alls kyns orðum, ólíkum þeim sem við notum í daglegu tali. Þannig fá börnin að „bragða á“ skrítnum og skemmtilegum orðum. Kvöldlestur getur einnig orðið mikilvægur hluti af, og bætt svefnrútínu ungbarns til muna.

Góð samskipti
Lestur bæði kennir, og er, góð samskipti. Börn læra að tjá sig og safna orðum í orðaforðann auk þess sem lestur er jákvæð stund milli þess sem les og þess sem hlustar. Amstur dagsins gleymist þegar foreldrar gefa barninu það besta sem þau geta gefið: tíma og nærveru. Það hægist á hjartslætti beggja aðila, barnið hlustar af athygli og foreldrar fá tækifæri til að bæta hverju því við söguna sem þeim finnst skipta máli þann daginn. Gegnum bækur er til dæmis hægt að kenna mannasiði og kurteisi, impra á mikilvægi þess að borða matinn sinn og hughreysta þau börn sem hrædd eru við tannlækninn. Þannig eru bækur fullkomið hjálpartæki fyrir nánast öll þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir sem foreldrar.

Heimurinn stækkar
Heimur íslenskra barna er harla stór. Eyjan okkar er einangruð og menningin fremur fábreytt ef horft er til alls sem í heiminum býr. Með lestri bóka geta börn ferðast til framandi landa, kynnst ótal þjóðernum og menningum, siðum og venjum. Þau kynnast líka geysistórri töfraveröld: furðuverum og ófreskjum, tröllum og dvergum, ævintýraprinsessum og heimsins sterkustu stelpum. Þegar við kynnum börn fyrir spennandi heimi ævintýranna teygjum við og togum á landamærum þeirra eigin ímyndunarafls. Þau læra hina mikilvægu list að „bulla“ og skálda, skapa eigin persónur og eigin ævintýri.

Orð skapa öryggi
Ímyndaðu þér að þú sért stödd/staddur í einhverju Norðurlandanna. Þú hefur grunnskilning á málinu sem talað er í kringum þig, getur pantað þér kaffibolla eða pylsu og spurt fólk einfaldra spurninga. Þegar fólkinu í kringum þig fjölgar og hraði samtalanna eykst er hinsvegar líklegt að þú missir þráðinn (nema þú hafir fylgst þeim mun betur með í dönskutíma í gamla daga). Eigirðu svo að tjá þig faglega, til dæmis um starfið þitt, á tungumáli sem þú þekkir ekki vel, er líklegt að þú tafsir á orðum og þurfir helst að hafa punkta skrifaða hjá þér til að upplifa þig örugga/n í aðstæðunum. Ekkert foreldri vill að barninu þeirra líði illa og sé óöruggt en einmitt þannig gæti barni liðið sem þarf að tjá sig en hefur ekki orðin til þess. Lestur leggur grunn að góðum orðaforða og gefur börnum orðin til að segja hvað það er sem þau þurfa, vilja og ætla sér. Einstaklingur sem kann að setja orð á hvert hann stefnir er líklegri til að ná takmarkinu að lokum, hvort sem hann er þriggja ára eða þrítugur.

Bækur eða græjur
Sjálf þurfum við af og til að leggja frá okkur snjallsímann og vera lesandi fyrirmyndir. Þegar barn sér foreldri, stærstu fyrirmyndina, með bók í hönd kveikir það áhuga þeirra á bókum. Rétt eins og við ætlumst ekki til þess að barnið borði brokkolí meðan við úðum í okkur ostborgara þá getum við ekki búist við því að barnið okkar sækist í bókalestur ef það sér mömmu og pabba alltaf í símanum. Börn sækja gjarnan mikið í spjaldtölvur eða sjónvarpsefni og vissulega getur slík afþreying komið sér vel, til dæmis þegar foreldri þarf að kaupa sér frið í nokkrar mínútur. Höfum það þó í huga að nota græjurnar í hófi því þær einangra barnið og ekkert samtal á sér stað. Jafnvel þegar Dóra landkönnuður spyr áhorfendur spurninga bíður hún ekki lengi eftir svari og börn læra það fljótlega að Dóru í raun alveg sama hvað þeim finnst. Lestur snýst aftur á móti um samveru, barnið upplifir að rödd þess, spurningar og vangaveltur skipti máli. Barn hlustar af athygli á lesinn texta en sagan skilur enn meira eftir sig þegar sá sem les túlkar textann eða bætir einhverju við frá eigin hjarta. Það hvetur barnið til að leggja eigin meiningu í orð og eykur lestrarskilning. Það er eitt að kunna að hlusta eða lesa og annað að skilja það sem sagt er frá. Um leið kennum við börnum gagnrýna hugsun, að draga í efa, spyrja spurninga og velta hlutunum fyrir sér.

Nokkur góð ráð:

  • Lestu helst daglega
  • Lestu á ákveðnum tíma
  • Hafðu notalegt í kringum ykkur
  • Veldu vandaðar bækur sem barnið má koma við
  • Bækur eru ekki heilagar, ef bókin rifnar, límdu hana saman!
  • Lifðu þig inn í textann
  • Spurðu barnið spurninga
  • Svaraðu spurningum barnsins
  • Ekki einfalda textann þegar þú lest, útskýrðu frekar orðin
  • Endurtekningar eru mikilvægar
  • Leyfðu barninu að velja bækur og stjórna ferðinni
  • Hafið gaman af lestrinum!

Frá bóndadegi til konudags er fólk hvatt til að þreyja þorrann með lestri og getur fólk myndað lið, t.d.  á vinnustaðnum, með saumaklúbbnum eða fjölskyldunni og geta jafnvel yngstu meðlimirnir tekið þátt. Sjá nánar um lestrarátakið á Allirlesa.is. Pistill þessi birtist upphaflega í tímaritinu Man.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing