„Pabbi á enga peninga. Hann á bara kort,“ svaraði fjögurra ára dóttir mín þegar ég spurði af hverju hún væri að pakka inn fjórum krónupeningum handa honum. Hún er annars súpergóður neytandi, sér neyslutækifæri alls staðar og eins og mörg börn (og jafnvel fullorðnir) þá er hún með ömurlega verðvitund og 0% fyrirhyggju í fjármálum. Ennþá.
Kiddi afi minn kenndi mér að þekkja klinkið í sundur þegar það voru ennþá 50 króna seðlar og aurar í umferð. Ég man enn tilfinninguna þegar ég „skildi“ peninga, ég sakna hennar svolítið. Á þeim árum var miklu auðveldara fyrir börn að ná utan um samhengi peninganna. Maður fór með fimmtíu kall út í búð og fékk frábæra kennslustund í stærðfræði fyrir framan bland-í-poka borðið. Munið þið hvað töggurnar kostuðu? Nú fæst ekkert fyrir fimmtíukall og nær allir strauja bara plastið og taka ekki einu sinni kvittunina. Borga bara með símanum! Er þá að undra að börnin hafi lítinn sans fyrir verðmiðum og verðmætum?
Ég fór því á stúfana og fann leiðbeiningar fyrir foreldra og uppalendur sem vilja hjálpa börnunum sínum að skilja það sem sumir telja að snúi hnettinum okkar. Vitanlega er þetta ekki hinn endanlegi sannleikur um efnið en þetta er sannarlega í áttina. Og maður á víst að byrja snemma. Raunar mætti segja að lykilatriði í því að þú – kæra foreldri – getir lifað mannsæmandi lífi á þínum efri árum er að þú kennir barninu þínu að fara með peninga. Ef þú heldur að þú sért ekki heppilegasta manneskjan til þess að miðla fróðleik af þessu tagi þá skaltu endilega bara finna einhvern annan í þinn stað.
Svo hér eru nokkrar mikilvægar uppeldislexíur fyrir þá sem vilja búa í haginn:
Fyrir 3-5 ára börn
- Þú þarft peninga til þess að kaupa hluti. Ræddu við barnið þitt um muninn á því sem er hægt að kaupa og annað, sem líka skiptir máli, sem ekki kostar peninga. Skoðaðu peninga með því og kenndu því að þekkja þá í sundur.
- Þú vinnur þér inn peninga. Leyfðu barninu að kynnast vinnunni þinni, skoðaðu atvinnulífið í kringum ykkur og ræddu við það um mismunandi störf og verkefni sem fólk fær greitt fyrir að sinna.
- Þú gætir þurft að bíða með að kaupa það sem þig langar í. Finndu tækifæri fyrir barnið til þess að æfa sig í að bíða. Ræddu við barnið um hvernig maður safnar fyrir hlutum og hlutverk sparibauksins.
- Það er munur á því sem þú vilt og þess sem þú þarft. Ræddu um muninn á því sem er nauðsynlegt, eins og matur og klósettpappír, og því sem við höfum val um að kaupa. Ræddu um mikilvægi mismunandi hluta fyrir fjölskylduna – og hver þarf eða fær að taka ákvarðanir um hvernig peningunum er varið.
Fyrir 6-10 ára krakka
- Þú tekur ákvarðanir um hvernig þú eyðir peningunum þínum. Leyfðu barninu að taka þátt í ákvörðunum, t.d. í verslunarferðum og útskýrðu af hverju þú velur eitt fram yfir annað. Spyrðu þig upphátt fyrir framan barnið: „Þarf ég á þessu að halda núna … get ég kannski fengið það lánað einhvers staðar … kostar það kannski minna annars staðar?“
- Það er gott að gefa sér tíma til þess að skoða og gera samanburð á verði áður en þau kaupir eitthvað. Gerðu verðsamanburð með barninu þínu á einhverju sem barnið þitt þekkir eða hefur áhuga á.
- Að geyma peninga í banka getur verndað sparnaðinn þinn og ávaxtað peningana þína. Heimsæktu bankann með barninu og fræddu það um hlutverk banka og hvernig vextir virka. En mundu að kenna því líka að bankinn er ekki vinur þinn, þó hann hafi gefið þér sparibauk (og buff!). Þarna er tækifæri til þess að kenna þeim hugtakið „hagsmunir“.
- Peningar koma ekki af sjálfu sér. Ekki bara „gefa“ barninu peninga, leyfðu því að vinna fyrir þeim eða í það minnsta vita af hverju það fær þá (þetta er líka gott að árétta við ömmur og afa og heldri frænkur/frændur).
Fyrir 11-13 ára ungmenni
- Þú ættir að spara að minnsta kosti hundrað krónur af hverjum þúsund. Hvettu barnið þitt til þess að spara 10% af öllu fé sem það eignast og leggja það fyrir í langtímasparnað. Leyfðu barninu líka að setja sér markmið til skemmri tíma og spara fyrir einhverju sem skiptir það máli. Hjálpaðu því að fylgjast með sparnaðinum sínum. Íhugaðu að styðja við sparnaðinn með mótframlagi, t.d. fyrir hverjar 1000 kr. sem það safnar bætir þú við 200 kr. til viðbótar.
- Því fyrr sem þú byrjar að safna því betra. Fræddu barnið þitt um hvernig langtímasparnaður getur sparað því vinnu og fyrirhöfn. Peningarnir geta líka unnið fyrir okkur.
- Allt kostar eitthvað. Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis, það eina sem er víst er skattur og dauði. Nei, djók. En samt ekki. Ræddu við ungmennið þitt um hvert peningarnir fara og hvernig kostnaður verður til. Þetta er til dæmis hægt að gera út frá símareikningnum – það er þjónusta sem ungmenni tengja auðveldlega við.
- Að nota kreditkort er eins og að fá lán. Fræddu barnið um hvernig þú átt aldrei að nota kreditkort til þess að borga fyrir eitthvað sem þú átt ekki reiðufé fyrir. Berðu saman mismunandi kort með barninu þínu og skoðaðu vextina sérstaklega. Ræddu við það um hvenær er heppilegt að nota kreditkort og hvenær ekki.
- Það er hættulegt að gefa upp bankanúmer eða kortnúmer á netinu Fræddu barnið um ábyrga netnotkun og netverslun. Útskýrðu fyrir þeim hvernig fyrirtæki reyna að fá notendur til þess að kaupa eitthvað með gylliboðum um „ókeypis“ hluti eða þjónustu sem og svikahrappa sem reyna að komast yfir bankaupplýsingar og kortanúmer.
Í næsta pistli verður svo fjallað um fjármálalexíur fyrir 14 ára og eldri en þar ber meðal annars á góma hormóna, launaseðla og smálánafyrirtæki. Fylgist með!
Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.