Þriðju tónleikarnir í tónleikaröðinni KEX+KíTÓN í samstarfi við Arion banka verða haldnir á KEX Hostel 20. júlí næstkomandi þar sem fram koma Soffía Björg og Boogie Trouble.
Soffía Björg gaf út sitt fyrsta smáskífulag ‘Back & Back Again’ síðastliðið haust. Síðan þá hefur hún komið frá á Iceland Airwaves, Secret Solstice og Musexpo í Los Angeles. Í sumar mun hún meðal annars koma fram á Bræðslunni á Borgarfirði eystri.
Soffía Björg hefur nýlokið hljóðversvinnu á komandi plötu með tónlistarfólkinu Ingibjörgu Elsu, Kristofer Rodriguez og Pétri Ben ásamt breska upptökustjóranum Ben Hillier. Ben hefur komið víða við og hefur unnið með nöfnum á borð við Blur, Suede, Depeche Mode, Balthazar og Elbow svo nokkur séu nefnd.
Diskóboltarnir í Boogie Trouble vekja lukku hvert sem þau koma með dansvænni, fjörugri og ferskri popptónlist.
Aðgangseyrir er 1.500 krónur og er selt við innganginn. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og eru tónleikagestir hvattir til að mæta tímanlega.
KEX Hostel hefur frá opnun 2011 lagt mikla áherslu á lifandi tónlist og hefur fjöldi íslenskra og erlendra tónlistamanna komið fram á KEX. Samstarfið með KÍTÓN – konur í tónlist undirstrikar og styrkir enn frekar tengsl KEX Hostel við fjölda listamanna og það er svo sannarlega mikið gleðiefni að tengjast KÍTÓN og munu KEX og KÍTÓN bjóða uppá mánaðarlega tónleika undir yfirskriftinni KEX+KÍTÓN.
KÍTÓN stendur fyrir konur í tónlist og er tilgangur félagsins er að skapa jákvæða umræðu, samstöðu og samstarfsvettvang meðal kvenna í tónlist. Þeim tilgangi er náð með auknum sýnileika, viðburðum og stöðugu samtali við tónlistarkonur á Íslandi. Samstarf KÍTÓN við KEX Hostel og Arion Banka rennur enn fremur stoðum undir það góða starf sem KÍTÓN er að vinna. Með tilstuðlan KÍTÓN er umræðan um stöðu kvenkyns laga- og textahöfunda jafnt sem flytjenda orðin fyrirferðameiri en hún hefur verið undanfarna áratugi. Félagið fer þvert á allar tónlistarstefnur, strauma, bakgrunn, menntun og jafnvel má sjá konur í félaginu sem starfa við tónlist sem umboðsmenn eða hafa atbeini eða starfa af tónlistargeiranum. Félagið fer ört stækkandi og eru nú um 246 félagskonur skráðar.