Samkvæmt hefðbundnum mælingum varir sumarið á norðurhveli jarðar frá 21. júní til 22. september (á norræna tímatalinu er þó sumarið ívið lengra). Finnst okkur því tímabært að fara yfir það sem stóð upp úr í íslensku rappi, sem og í íslenskum rytmablús (R&B), í sumar – en það er af nógu að taka.
Hér eru þau 20 lög sem hafa staðið upp úr að okkar mati. Sitt sýnist, að sjálfsögðu, hverjum.
20. Landaboi$ – Hvítir sokkar
Lagið Hvítir sokkar verður að finna á væntanlegri plötu frá Landaboi$ sem ber titilinn Vitleysa og verður gefin út á allra næstu dögum.
19. MCMG – Alright
Líkt og fram kom í viðtali við MCMG á Ske.is í vikunni þá er þetta fyrsta lagið og myndbandið sem akureyrski rapparinn gefur út.
Nánar: https://ske.is/grein/nordlenski…
18. Bent – OJ
Bent kíkti við í útvarpsþáttinn Kronik í sumar og frumflutti lagið OJ í beinni. Myndbandið sjálft rataði inn á Youtube nokkrum vikum síðar.
17. BLKPRTY – Fyah
Síðastliðinn 1. september gaf tvíeykið BLKPRTY, í samstarfi við Alda Music, út lagið Fyah. Líkt og fram kom í samtali SKE við Þorbjörn Einar, hinn helming tvíeykisins, þá eru fleiri lög væntanleg frá BLKPRTY á næstunni.
16. Herra Hnetusmjör – Kling Kling
Herra Hnetusmjör gaf út lagið Kling Kling í sumar. Í samtali við SKE við útgáfu lagsins lýsti rapparinn tilurð lagsins á eftirfarandi veg: „Joe Frazier viðraði þá hugmynd að taka upp keðjurnar mínar skellast saman og sampla það. Þaðan kom í rauninni conceptið af laginu. Hlynur Hólm (Ár eftir ár, 203 Stjórinn) gerði myndbandið og Ágúst Elí (Enginn mórall) á heiðurinn á brellunum í himninum.“
15. Helgi B, Helgi Trap, Króli – Á réttum stað
Helgi B og Helgi Trap úr hljómsveitinni Landaboi$ fengu Króla með sér í lið í laginu Á réttum stað. Lagið pródúseraði $tarri og myndbandinu leikstýrði Hlynur Hólm.
14. JóiPé x Króli – O Shit
Lagið O Shit er að finna á plötunni GerviGlingur sem kom út í september en á tímabili sátu öll lög plötunnar á toppi vinsældalista Spotify. Tæpum tveimur mánuðum áður kíktu JóiPé og Króli í útvarpsþáttinn Kronik og fluttu lagið O Shit í beinni. Lagið pródúseraði Þormóður Eiríksson.
13. Joey Christ x Birnir – Túristi
Lagið Túrist eftir Joey Christ og Birni er að finna á plötunni Joey sem kom út síðastliðinn 10. júlí. Myndbandið við lagið kom út í september og hefur fengið fínar viðtökur.
12. JóiPé x Chase – Ég vil það
Einn af eyrnarormum sumarsins, Ég vil það hefur notið mikilla vinsælda undanfarið og hafa fá íslensk myndbönd verið jafn vinsæl á Youtube í ár.
11. Bróðir BIG x Gísli Pálmi – Bragdagalistir
Rapparinn Bróðir BIG gaf út plötuna Hrátt Hljóð í júlí. Platan inniheldur 17 lög og koma rappararnir MC Bjór, Seppi, BófaTófa, Gísli Pálmi, Haukur H, Þeytibrandur og Morgunroði við sögu ásamt plötusnúðunum DJ B-Ruff og DJ Bricks. Lagið Bragdagalistir stóð upp úr.
„Ég hræki í mækinn
Rækilega ef tækifæri gefst
Með hægri hendi
Kræk’ í tækið
Frá þú færir
Væri best.“
10. Black Pox, Countess Malaise, Prince Fendi – Watch Me
Í grein sem birtist á Ske.is fyrir stuttu fjallaði pistlahöfundur um þá eiginleika íslensks rapps árið 2017 sem eru hvað mest heillandi.
Nánar: https://ske.is/grein/what-we-lo…
Einn þeirra eiginleika var afturhvarf fyrirbærisins „the posse cut“ (þar sem þrír eða fleiri rapparar leiða hesta sína saman í einu og sama laginu, t.d. Joey Cypher, Kadillak Draumar, Gella Megamix o.s.frv.).
Í þessu samhengi ríkti sérstök ánægja yfir útgáfu myndbandsins við lagið Watch Me þar sem Countess Malaise, Black Pox og Prince Fendi (Geisha Cartel) koma saman (að vísu sér Fendi einvörðungu um viðlagið).
Þess má einnig geta að Black Pox hyggst gefa út nýtt lag í næstu viku.
9. DJ B-Ruff x Anna Hlín – Kisses
Síðastlðinn 27. júlí rataði lagið Kisses eftir plötusnúðinn DJ B-Ruff og söngkonuna Önnu Hlín á Youtube en lagið fór í spilun á útvarspstöðinni Áttunni á svipuðum tíma og það við góðar undirtektir.
Í samtali við SKE tjáði B-Ruff blaðamanni að meira efni væri mögulega á leiðinni.
8. Kilo – Trap Out
Síðastliðinn 10. ágúst gaf rapparinn Kilo út myndband við lagið Trap Out en um ræðir lag sem er að finna á plötunni White Boy of the Year sem einnig kom út 10. ágúst. Lagið pródúseraði BLCKPRTY og var það Balatron sem sá um hljóðblöndun og masteringu – en hinn fyrrnefndi leikstýrði myndbandinu sjálfu.
7. JóiPé x Króli – Sagan af okkur
JóiPé og Króli voru gestir útvarpsþáttarins Kronik síðastliðið föstudagskvöld en ásamt því að rappa í beinni var lagið Sagan af okkur einnig spilað fyrir hlustendur; án efa eitt af betri lögum plötunnar GerviGlingur.
6. Joey Christ – Ísvélin
Lagið Ísvélin skartar Sturla Atlas og, líkt og Túristi, er að finna á plötunni Joey. Óneitanlega grípandi lag og skemmtilega sýrður texti.
5. RVKDTR – Reppa heiminn
Í sumar frumsýndu Reykjavíkurdætur, í samstarfi við Röggu Holm, myndband við lagið Reppa heiminn á Prikinu. Stuttu síðar neyddust Reykjavíkurdætur til að fjarlægja myndbandið af Youtube vegna leyfismála en hér fyrir neðan má sjá Dæturnar flytja lagið í beinni í Kronik.
4. Emmsjé Gauti – Hógvær
Síðastliðinn 14. september frumsýndi rapparinn Emmsjé Gauti myndband við lagið Hógvær á Bryggjunni brugghús en lagið verður að finna á væntanlegri plötu sem rapparinn hyggst gefa út í kringum áramótin.
Myndbandinu leikstýrði Magnús Leifsson og var það tökumaðurinn Þór Elíasson sem stóð sína plikt á bak við myndavélina. Myndbandið er í anda Dressman auglýsinga þar sem hópur karlmanna spókar sig um í fínum fötum á meðan Gauti sér um rappið.
3. Sturla Atlas – I Know
Lagið I Know eftir Sturla Atlas er endurhljóðblönduð útgáfa af lagi sem upprunalega var unnið af raftónlistarmanninum Major Lazer. Myndbandinu leikstýrði Unnsteinn Manuel Stefánsson. Eitt af lögum sumarsins.
2. SAMA-SEM – Sólsetrið
Tvíeykið SAMA-SEM – sem samanstendur af þeim Dadykewl og BNGRBOY – frumsýndu myndband við lagið Sólsetrið á Prikinu í sumar. Rúm vika leið frá því að myndbandið rataði inn á Youtube sökum þess að einni senu var bætt við. Nýtt efni er væntanlegt frá SAMA-SEM á næstu vikum.
1. JóiPé x Króli – B.O.B.A.
Það þarf ekki að sóa neinum orðum í lýsingu á laginu B.O.B.A. eftir JóaPé og Króla en um ræðir vinsælasta lag sumarsins.