Ég er 29 ára gamall. Ég er forn. Ég er byrjaður að síga niður í gröfina. Það eina sem stendur eftir er að verða þrítugur og að loka líkkistunni endanlega. Að liggja á bakinu í myrkrinu og leyfa möðkunum að gera kommúnu úr lifrinni á mér; að sökkva dýpra og dýpra og dýpra þangað til, að lokum, verð ég fertugur – og þá verð ég ekki til lengur. En ég hef ákveðið að fara ekki hljóðlega. Ég verð ekki jarðsettur í kyrrþey. Ég ætla ekki að vera grafinn í kaldri líkkistu ellinnar án þess að grípa dauðahaldi í illgresið, blómin og skordýrin og toga þau ofan í myrkrið með mér. Svo lengi sem ég hef fingur, skulu þeir hrifsa, hrifsa, hrifsa – hrifsa í átt að ævarandi æsku. Ég er nokkuð viss um að maðurinn byrji að eldast þegar að hann hættir að berjast gegn sínum eigin tíma; gegn sinni eigin stöðnun; gegn niðurför sinni í átt að íhaldsseminni. Um leið og maðurinn gefst upp á sínum hugsjónum; segir skilið við ímyndunaraflið og lætur sína stórfenglegu Útópísku sýn úr greipum sér ganga – þá fyrst er hann dauður. Svo, í ár, til þess að gefa ellinni puttann, þá ætla ég að fara á alla tónleikana, allar hátíðarnar, allar myndlistarsýningarnar, allar ljósmyndasýningarnar, á alla veitingastaðina og barina, drekka úr sprungnu staupglasi lífsins með endurnýjuðum þrótti. Ég skal vera drukkinn af víni, kynlífi, mat, ást og lífi – eins og motherfuckin’ Baudelaire. Þú heldur kannski að þú hafir séð lífsdrukkinn mann. En þú hefur ekki séð hann. Þér hefur skjátlast. Héðan í frá skalt þú hugsa aftur til þess manns og segja: ‘þessi maður var varla tipsy‘.
HAHAHAHA
Ég skal verða líflegasta kvikindi allra tíma!
#vampíruswagg#ætíðungur