Fréttir
Liðurinn Mean Tweets (eða illkvittin tíst) sem kemur reglulega fyrir í bandaríska spjallþættinum Jimmy Kimmel Live hefur notið mikilla vinsælda frá því að hann hóf göngu sína fyrir nokkrum árum síðan.
Í liðnum lesa nafntogaðir einstaklingar upp ódrengileg tíst sem notendur Twitter hafa látið falla í þeirra garð. Á meðal þeirra sem hafa verið gestir Mean Tweets síðastliðin misseri eru fyrrum forseti Bandaríkjanna, Barack Obama; leikkonan Halle Berry; og leikarinn George Clooney, og svona mætti lengi halda áfram að telja.
Í síðustu útfærslu Mean Tweets fékk Jimmy Kimmel nokkra fræga rappara til þess að lesa upp rætin tíst um sjálfa sig—en myndbandið nýtur mikilla vinsælda á Youtube um þessar mundir (sjá hér að ofan).
Meðal þeirra sem lesa upp er ólátabelgurinn 50 Cent en þar er vegið að vitsmunum tónlistarmannsins á ansi ofbeldisfullan máta: „50 Cent er hálfviti sem á skilið spark í punginn,“ ritaði einn notandi Twitter.
Einnig lesa A$AP Rocky, Lil Wayne og Remy Ma upp sambærileg tíst.