Kannski er „djass“ óþýðanlegt hugtak, hulið þykkri þoku tengsla, skrýtla og sagna – en eitt er víst: Kjarni djassins er spuni; frelsi; skurðpunktur hæfileika og tækifæra.
Eins og einhver sagði einhvern tímann: „að skapa merkingu á meðan maður gefur hljóðfærinu lausan tauminn er kjarni og fyrirheit djassins.“
(Og á það sama ekki við lífið?)
Það er því kannski skiljanlegt að sú plata sem margir telja bestu djassplötu sögunnar, efni slíkt loforð.
Á aðeins tveimur dögum árið 1959, 2. mars og 22. apríl, kallaði Miles Davis fimm hæfileikaríkustu hljóðfæraleikara djassheimsins saman í „30th Street“ hljóðverið í New York: píanóleikarann Bill Evans, trommarann Jimmy Cobb, bassaleikarann Paul Chambers og saxófónleikarana John Coltrane og Julian “Cannonball“ Adderley (píanóleikarinn Wynton Kelly spilaði einnig í einu lagi).
Á þessum tveimur dögum hljóðritaði sextett Miles Davis plötu sem varð að mest seldu djassplötu allra tíma – Kind of Blue.
Kind of Blue fylgdi í kjölfar plötunnar Milestones (1958) og á plötunni færði Miles Davis sig enn fjær „hard bop“ stílnum sem var vinsæll á fyrri hluta sjötta áratugarins og nær tilraunakennda frelsinu sem einkenndi „modal“ djassinn („hard bop“ stíllinn var hraðari og stífari og kvað á um skýrar breytingar á milli hljóma. „Modal“ djassinn snérist meira um að spinna í kringum skala.)
Hljóðfæraleikararnir fengu ekki nákvæm fyrirmæli um hvað þeir áttu að spila, heldur leitaðist Miles við að fanga anda uppgötvunarinnar með því að gefa meðspilurum sínum aukið rými.
(Trommarinn Jimmy Cobb segir í heimildarmynd um Kind of Blue að fyrir hljóðritun plötunnar hafi Miles rétt honum lítið nótnablað og sagt við hann: „Láttu trommurnar fljóta.“)
Afrakstur afskiptaleysis Miles og hæfileika sextettsins var fimm laga plata sem mörgum þykir ein besta djassplata allra tíma.
Hvert einasta lag á Kind of Blue var tekið upp í einni töku og flest lögin voru tekin upp í fyrstu töku (sú hugsjón sem var hafð að leiðarljósi var þessi: „fyrsta hugmyndin er sú besta.“)
Andi djassins svífur yfir vötnum.
Í sjálfsævisögu sinni segir Miles Davis að styrkur Kind of Blue felist í því að platan einkennist af stöðugum innblæstri, annars vegar, og hversu áþreifanlega örvaðir hljóðfæraleikararnir voru við hljóðritun plötunnar, hins vegar:
„Þegar tónlistarmaðurinn er settur í þá stöðu þar sem hann þarf að gera eitthvað frábrugðið því sem hann er vanur að gera … þar verður mikil list og tónlist til.“ – Miles Davis.
Kind of Blue kom út 17. ágúst 1959 og var það plötufyrirtækið Columbia Records sem gaf plötuna út.
SKE hvetur alla lesendur til þess að kynna sér þessa mögnuðu plötu betur.
Inngangurinn að fyrsta lagi plötunnar, So What, þykir stórbrotinn. Takið vel eftir krassinu rétt áður en sóló-ið hans Miles á trompetinu byrjar (1.32 í myndbandinu hér fyrir neðan); trommarinn Jimmy Cobb var viss um að Miles mundi ámæla honum og stoppa tökur – en svo varð ekki.
Krassið lifir.
Og djassinn líka.