Túristi er tegund sauðfénaðar sem fyrirfinnst um land allt, en, sérílagi, á götum Reykjavíkur.
Túristinn er fjórfætt jórturdýr – úlpuklætt! – sem gengur upprétt, á tveimur fótum, og hefur, þar að auki, manneskjulega ásjónu, sem dregið hefur ófáan Íslending á tálar.
(sauðfé í mannsmynd, sumsé.)
Á götum Reykjavíkur ráfar túristinn um stefnulaus, og kemur það oftlega fyrir að hann snarbeygi út á götu, í veg fyrir umferðina, líkt og að hann sé sannfærður um eigin ódauðleika – eða skilji ekki hugtakið ‚árekstur‘.
Í raun virðist túristinn leggja sérstakt kapp á það að skaprauna innbornum mönnum, með því að vera ávallt fyrir.
Samkvæmt íslenskum lögum er mönnum óheimilt að myrða túrista, og hann sá sem gerir sig sekan um slíka misgjörð er vistaður, umsvifalaust, í brasilísku fangelsi.
En megi Guð blessa ímyndunaraflið!
Ímyndunaraflið er mektugt, og jafnframt vanmetið vopn, sem vitibornir menn beita til þess að myrða sauðfénað í fullkomnu refsileysi; í huganum er sauðdráp löglegt (sem og önnur siðlaus athæfi #voyeurism).
Þessa dagana veiti ég heift minni útrás með aðstoð þessa vopns – og hreinsa mitt geð.
Í dag myrti ég þrjár kindur.
#1 Kiðfættur túristi slangraði út á Skólavörðustíginn, í veg fyrir jeppann minn, í viðleitni sinni að festa Hallgrímskirkju á mynd. Í stað þess að bremsa – gaf ég í! – ók yfir kindina, smellti svo af mynd af lífvana skrokknum og setti listaverkið á Instagram #SheepDurango.
#2 Gamall bandarískur túristi skakklappaðist upp Laugaveginn og mengaði andrúmsloftið með ókristilegri tungu sinni, þessari sömu tungu og er í stöðugum krampaflogum í þverrifunni hans Trumps. Í stað þess að daufheyrast dró ég sveðju mína úr slíðrinu og hvatti til skilnaðar á milli höfuð hans og háls. Svo tók ég mynd af þessu mislukkaða hjónabandi og vistaði á Instagram #acleanbreak.
#3 Hópur ófrýnilegra túrista stillti sér upp við hliðina á tröllskessunni á Laugaveginum og hindruðu för mína, er forystusauðurinn handfjatlaði myndavélina – spenntur. Ég sparkaði fætinum í gegnum rif forystusauðsins – stakk hann, sumsé, á tein – og gekk staðfastur upp Laugaveginn, búkur túristans sem risastór snjóþrúga á fæti mínum, blóðug og þung. Svo tók ég mynd af nýju skónum og setti á Instagram #trending.
Þetta var góður dagur.
Útrýmum sauðunum – en bara í huganum.
Orð: Friðrik Níelsson