Auglýsing

Anita Briem endurvekur lag úr ,bannsettri’ auglýsingu

Fyrir stuttu sendi bandaríska raftónlistarkonan Henri (Henrietta Tiefenthaler) frá sér EP plötuna Fine Day / I See Ice Cream. Platan, sem geymir fjögur lög, skartar íslensku söng- og leikkonunni Anítu Briem, en hún syngur í laginu Fine Day (hlýða má á plötuna hér fyrir neðan). Þykir útkoman stórfín (Albumm.is: „Rödd hennar er dáleiðandi, seiðandi og grípandi …“).

Óhætt er að segja að lagið Fine Day – sem á rætur sínar að rekja til níunda áratugarins – eigi sér sérstaklega áhugaverða sögu. 

Hér fyrir neðan reifar SKE þessa sögu í stuttu máli:

Enska ljóðskáldið Edward Barton samdi lagið It’s a Fine Day snemma á níunda áratuginum, en kærasta hans og söngkonan Jane Lancaster söng lagið í a cappella útgáfu árið 1983. 

Plötusnúðurinn John Peel, hjá útvarpsstöðinni BBC Radio 1, leyfði laginu að fljóta á öldum ljósvakans og bárust þær bylgjur að eyrum Iain McNay, stofnanda plötufyrirtækisins Cherry Red Records, þar sem hann heyrði lagið fyrst. 

Lagið var síðar gefið út af Cherry Red Records sama ár og rataði það í 5. sæti breska listans. 

Þremur árum seinna, eða árið 1986, hljómaði lagið í japanskri auglýsingu fyrir fyrirtækið Kleenex. Auglýsingin (sem má sjá hér fyrir neðan) þykir sérdeilis hrollvekjandi. Eftir útgáfu auglýsingarinnar fóru ýmsar ógvænlegar sögur á kreik; héldu margir því fram að bölvun hvíldi á auglýsingunni og segir sagan að leikkonan sem leikur aðalhlutverkið hafi misst vitið og að barnið, sem er látið líta út eins og tröll, hafi sálast stuttu eftir tökur. Einnig áttu margir þeirra sem komu að gerð auglýsingarinnar að hafa dáið á furðulegan hátt.

Þessi saga var síðar afsönnuð á bloggsíðunni Moroha.net. 

Nánar: https://www.moroha.net/blog/arc…

Sex árum seinna, eða árið 1992, gaf raftónlistarsveitin Opus III út It’s a Fine Day í eigin búning. Sú útgáfa klifraði í 5. sæti breska listans og er það jafnframt þekktasta útgáfa lagsins (lagið fór alla leið í 1. sætið í Bandaríkjunum á listanum US Hot Dance Club Play Chart). 

Sama ár (1992) samplaði raftvíeykið Orbital útgáfu Opus III af laginu Fine Day í lagi sínu Halcyonen lagið er tileinkað móður bræðranna í Orbital sem lengi vel var háð lyfinu Halcion (Triazolam). Lagið Halcyon er að finna á plötunni Radiccio EP, en lagið náði aldrei miklum vinsældum. 

Ári seinna, hins vegar, endurhljóðblönduðu Orbital Halcion og gáfu það út í nýrri útgáfu: Halcyon On and On, sem er eitt vinsælasta lag sveitarinnar frá upphafi. Lagið hefur hljómað í kvikmyndum á borð við Mortal Kombat, Hackers, CKY2k og Mean Girls og kannast eflaust einhverjir lesendur við lagið þaðan. 

Síðan þá hafa fjölmargar útgáfur af laginu litið dagsins ljós (sjá hér fyrir neðan). 

Óhætt er því að segja að lagið Fine Day eigi sér merkilega sögu sem hefur nú teygt anga sína til Íslands með samstarfi Anitu Briem og Henri.

Myndband við lag Anitu og Henri er væntanlegt í næstu viku (fylgstu með á www.ske.is).

Hér er hlekkur á tónlist Henri: https://soundcloud.com/henrimu…

Hér er svo hlekkur á viðtal SKE við Anitu Briem frá því í fyrra: https://ske.is/grein/anita-brie…

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing