Íslenskt
Andrúmsloftið í síðasta þætti Kronik var sérdeilis lifandi en frítt föruneyti gesta kíkti við í hljóðverið til Benedikts og Róberts: Herra Hnetusmjör, Egill Spegill, Birnir, Young Nazareth, Joe Frazier, DJ Karítas – og Joey Christ. Sá síðastnefndi ræddi væntanlega útgáfu nýs mixteips í júní ásamt því að frumflytja lagið Joey Cypher fyrir hlustendur en lagið verður að finna á umræddu mixteipi (hér fyrir neðan má sjá brot úr viðtalinu).
Í gær frumsýndi svo Joey Christ myndband við lagið Joey Cypher á Prikinu (sjá efst) og má segja að fá íslensk rapplög hafa verið beðið með jafn mikilli eftirvæntingu á árinu – en lagið skartar gæðaröppurunum Aroni Can, Birni og Herra Hnetusmjör.
Í samtali við umsjónarmenn þáttarins sagðist Joey Christ finna sig meira í rappinu þessa dagana:
„Mixteipið verður allsherjar ,vibe’ … Ég hef unnið í tónlist með Sturla Atlas en finn mig alltaf aðeins meira í rappinu heldur en R&B-inu og hef loks fundið ,outlet’ fyrir það. Mixteipið var unnið í nánu samstarfi með Young Nazareth.“
– Joey Christ
Eins og fram kemur í viðtalinu er það Young Nazareth sem pródúserar flest lögin á mixteipinu en einnig koma þeir Marteinn (BNGR BOY) og Geisha Cartel þar við sögu.