Viðburðir
Föstudaginn 22. september snýr Overground Entertainment aftur eftir rúmlega árs hlé og blæs til heljarinnar Hip Hop veislu á skemmtistaðnum Húrra í Reykjavík.
Fram koma Bent, Elli Grill, Geimfarar, ARKIR, Bróðir BIG og ætlar plötusnúðurinn BRR að þeyta skífum fyrir, eftir og á milli atriða (aðgangur kostar litlar 1.500 kr.).
Nánar: https://www.facebook.com/event…
Í tilefni tónleikanna tók SKE saman stutt ágrip af því sem ofangreindir listamenn hafa fengist við í ár (sjá hér fyrir neðan).
Bent
Þann 2. júní síðastliðinn kíkti Bent við í útvarpsþáttinn Kronik og frumflutti lagið sitt OJ í beinni. Tæpum tveimur mánuðum síðar rataði myndband við lagið á Youtube. Þess má einnig geta að Bent átti erindi í laginu Kim Jong-Un sem Rottweiler gáfu út í byrjun júní.
Elli Grill
Elli Grill gaf út plötuna Þykk Fitan Volume 5 í byrjun júní en um ræðir fyrstu sólóplötu rapparans. Platan inniheldur 12 lög og þar á meðal lagið Múffan (Olían) sem hefur jafnframt verið í miklu uppáhaldi hjá starfsfólki SKE. Þar á undan gaf Grillarinn út plötuna RÓS ásamt samstarfsbræðrum sínum í Shades of Reykjavík en platan skartaði góðum gestum á borð við BlazRoca, Kilo, Dadykewl, o.fl.
ARKIR
Eflaust höfðu margir aðdáendur tvíeykisins ARKIR afskrifað mögulegt afturhvarf sveitarinnar í ljósi þess að ansi mörg ár höfðu liðið frá því að sveitin sendi frá sér nýtt efni (rúm tvö ár eru liðin frá útgáfu lagsins Orð, Já með rapparanum 7berg). Í byrjun júní tilkynntu þeir Byrkir B og Addi Intro hins vegar að tvíeykið myndi snúa aftur og nú með nýjum meðlimi: rapparanum 7berg.
Geimfarar
Geimfarar hafa lengi verið einir kræfustu rapparar landsins. Sveitin hefur sent frá sér nokkur lög í ár á Soundcloud síðu sinni, þar á meðal lagið Peaceandharmony.
Bróðir BIG
Í júlí gaf rapparinn Bróðir BIG út sína fyrstu hljóðsversplötu. Platan ber titilinn Hrátt hljóð og skartar góðum gestum á borð við Gísla Pálma, MC Bjór, Seppa, BófaTófuna o.fl. Rapparinn gaf einnig út myndband við lagið Rekkógnæs í sumar.