Í gær (26. september) gaf hljómsveitin Berndsen út sína þriðju hljóðversplötu. Platan ber titilinn Alter Ego og geymir níu lög.
Hljómsveitin Berndsen samanstendur af þeim Davíði Berndsen, Hermigervli og Hrafnkeli Gauta Sigurðarsyni og þar að auki komu fjölmargir íslenskir tónlistarmenn við sögu við gerð plötunnar, þar á meðal Högni Egilsson, Ragnar Árni Ágústsson, Elín Ey, Hálfdán Árnason og fleiri.
Við fyrstu hlustun standa lögin Alter Ego, Shaping the Grey og The Origin upp úr.
Þess má geta að fimm ár eru liðin frá því að Berndsen gaf út plötuna Planet Earth (2013) en ef eitthvað er að marka viðtal við Davíð Berndsen frá árinu 2016 hefur platan Alter Ego þurft að þola einhverja seinkun: „Annars erum við að klára upptökur fyrir okkar þriðju plötu Alter Ego …“ (10. júlí 2016).
Nánar: https://kjarninn.is/folk/2016-…
Fyrsta plata Berndsen, Lover In The Dark, kom út árið 2011.
Hér fyrir neðan er svo myndband við lagið Shaping the Grey sem kom út í október 2016.
Að lokum má þess einnig geta að Davíð Berndsen var fyrsti viðmælandi ensku útgáfu tímaritsins SKE en með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan geta áhugasamir lesið umrætt viðtal.