Síðastliðinn 21. nóvember birti vefsíðan NME grein eftir blaðamanninn Douglas Greenwood og þá undir yfirskriftinni Popp er ekki ljótt orð: Piers Morgan, hættu að stimpla konur í popptónlist sem druslur („Pop Is A Not A Dirty Word: Piers Morgan, stop slut-shaming women in pop“).
Í grein sinni lastar Greenwood breska blaðafólkið Julia Hartley-Brewer og Piers Morgan fyrir gagnrýni þeirra á hljómsveitinni Little Mix—þar sem Greenwood vill meina að gagnrýnin sé ekki á rökum reist heldur grundvallist alfarið á gamaldags skoðunum á hlutverki kvenna í popptónlist.
Nánar: https://www.nme.com/blogs/nme-…
Segir Greenwood að popptónlist sé í auknum mæli að þróast út í vettvang fyrir ungar konur með sterkar skoðanir og bendir til tilkomu tveggja sterkra kvenlistamanna á sviði popptónlistar: hinnar bandarísku Billie Eilish og hinnar íslensku Glowie.
„Glowie verkar á mig sem listakona sem gæti mögulega þaggað niður í úreltum skoðunum miðaldra, glórulauss, popp-fóbísks fólks.“
– Douglas Greenwood
Máli sínu til stuðnings vísar hann í lagið Body eftir Glowie:
„Lengi vel var karlmönnum hrósað fyrir lög á borð við „Body“ á meðan kvenmenn máttu einfaldlega ekki semja sambærileg lög. Glowie er ung kona sem stimplar sig inn með grípandi lagi sem fjallar einfaldlega um það að dáðst að kynæsandi karlmanni.“
Myndband við lagið rataði inn á Youtube síðastliðinn 16. nóvember (sjá hér að neðan).
Í lok greinarinnar hrósar Greenwood einnig Instagram-síðu Glowie þar sem jákvæð líkamsímynd er í fyrirrúmi.
Instagram: https://www.instagram.com/itsg…