Ef það er ein saga sem hefur haft hvað mestu áhrif á sýn mína á heiminn þá er það eflaust dæmisagan um kínverska bóndann, en hún hljóðar einhvern veginn svona:
Það var eitt sinn fátækur kínverskur bóndi sem átti einn son og einn hest. Einn daginn strauk hesturinn. Er nágrannar bóndans bárust fregnir af þessu óláni bóndans sögðu þeir við hann „Mikið ertu óheppinn!“ og bóndinn svaraði „Kannski. Kannski ekki.“ Nokkrum dögum síðar snéri hesturinn aftur heim og brokkaði í hlað í fylgd annars villts hests. Er nágrannar bóndans fréttu af þessu láni bóndans sögðu þeir við hann „Mikið ertu heppinn!“ og bóndinn svaraði á sama veg: „Kannski. Kannski ekki.“ Nokkrum dögum síðar, er sonur bóndans gerði tilraun til þess að temja fyrrgreindan villta hest, féll hann af baki og fótbrotnaði. Aftur komu nágrannar bóndans að máli við hann og sögðu „Mikið ertu óheppinn!“ Og bóndinn svaraði á sama veg: „Kannski. Kannski ekki.“ Viku síðar var íbúum þorpsins ógnað af herskáum hópi manna og öllum karlmennum þorpsins gert að sinna herskyldu. Hundruði manna dóu í stríðinu – en þar sem sonur bóndans hafði fótbrotnað gat hann ekki barist. Þegar nágrannar bóndans fréttu af þessu sögðu þeir við bóndann, eina ferðina enn „Mikið ertu heppinn!“ og bóndinn svaraði á sama veg og áður: „Kannski. Kannski ekki.“
Þessi dæmisaga hefur haft djúptæk áhrif á mig. Ég reyni að lifa samkvæmt þessari visku bóndans. Fyrir fáeinum dögum síðan, til dæmis, fékk ég streptakokka sýkingu og það á sama tíma og ég átti að byrja í sumarfríi. Konan mín sagði við mig: „Mikið ertu óheppinn.“ Og ég, sárþjáður en jákvæður, hvíslaði upp úr bólgnu kverkunum:
„Kannski. Kannski ekki.“
Í orðum bandaríska smásagnahöfundarins Amy Hempel: „Hvernig vitum við að það sem hendir okkur sé slæmt?“
Orð: Friðrik Níelsson